Erlent

Hamborgarakeðjur í hremmingum

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Burger King hamborgarakeðjan í Bandaríkjunum er sökuð um að auglýsa miklu stærri hamborgara heldur en viðskiptavinir fá í hendurnar. Dómsmál hefst í New York á næstunni.
Burger King hamborgarakeðjan í Bandaríkjunum er sökuð um að auglýsa miklu stærri hamborgara heldur en viðskiptavinir fá í hendurnar. Dómsmál hefst í New York á næstunni. Wikimedia Commons

Dómsmál hefur verið höfðað í Bandaríkjunum gegn hamborgarakeðjunni Burger King fyrir að sýna hamborgara í auglýsingum sem eru miklu stærri og girnilegri en þeir sem viðskiptavinir fá svo í hendurnar til að seðja hungur sitt.

Íslenskir hamborgaraunnendur þekkja fæstir þessar Whopper auglýsingar Burger King sem dynja í eyrum Bandaríkjamanna fremur reglulega.

Auglýsingar sýna stærri hamborgara

Nú hefur einn viðskiptavinur keðjunnar höfðað mál gegn henni og segir hana svindla. Whopper hamborgararnir sem sýndir séu í auglýsingunum séu 35 prósentum stærri en þeir séu í rauninni og innihaldi helmingi meira kjöt en viðskiptavinurinn fái í hendurnar. Og magann. Slík niðurstaða krefst vafalítið nokkurrar yfirlegu og jafnvel stærðfræðikunnáttu, en dómari í New York hefur í öllu falli samþykkt málshöfðunina og hefjast réttarhöld með kviðdómi innan skamms.

„Þetta má“, segir Burger King

Lögfræðingar Burger King hafna þessu með öllu. Eðlilega. Þeir segja að Burger King beri engin skylda til að afhenda hamborgara sem líti út nákvæmlega eins og í auglýsingunum. Dómarinn í málinu segir hins vegar að það verði kviðdómenda og þar með almennra neytenda að kveða upp úr með það.

En Burger King er ekki eina skyndibitakeðjan sem á í hremmingum í bandaríska dómskerfinu um þessar mundir. Taco Bell hefur verið stefnt fyrir að selja pítsur og vefjur sem innihaldi rétt um helming þess kjöts sem sýnt er í auglýsingum og hamborgarakeðjunum McDonald´s og Wendy´s hefur einnig verið stefnt fyrir sviksamlega viðskiptahætti af sama meiði.

Vilja meira en 5 milljónir dala í skaðabætur

Í öllum þessum stefnum fara viðskiptavinir fram á að minnsta kosti 5 milljóna dala skaðabætur, andvirði um 650 milljóna íslenskra króna. Fyrir þá upphæð væri hægt að kaupa einn hamborgara handa hverjum núlifandi Íslendingi, og eiga afgang.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×