Innlent

Heimspressan tekur fyrir ákvörðun Svandísar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Sumir eru ósáttir með ákvörðun Svandísar en aðrir segja hana nauðsynlegt skref.
Sumir eru ósáttir með ákvörðun Svandísar en aðrir segja hana nauðsynlegt skref. Vísir/Vilhelm

Margir stærstu fjölmiðlar heims hafa greint frá ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að halda hvalveiðum áfram til ársloka. Á meðal miðla sem hafa fjallað um málið eru BBC, The Guardian, Reuters, AP og Fox News.

Umfjöllun margra miðlanna byggir á frétt AP-fréttastofunnar. Þar er greint frá ákvörðun Svandísar, að leyfa veiðar á ný með strangari skilyrðum og eftirliti.

Þá segir að dýraverndunarsamtök hafi sagt ákvörðunina skammarlega. Um sé að ræða glatað tækifæri til að gera það rétta varðandi hvalveiðar.

Vísað er til baráttumannsins og kvikmyndagerðarmannsins Micah Garen, sem nú vinnur að heimildarmynd um hvalveiðar. „Varla nokkur maður borðar hvalkjöt á Íslandi. Fólkið vill þetta ekki. Fólk vill ekki að þessi dýr séu drepin,“ er haft eftir honum.

Greinar í miðlum á borð við Fox News, Metro, og Times of India byggja á þessari umfjöllun AP.

Í The Guardian er mikið fjallað um mismunandi viðhorf til ákvörðunarinnar. Vísað er til tilkynningar frá Svandísi sem segir að óháð eigin viðhorfi til málsins, þá séu hvalveiðar enn þá til skoðunar. Til að mynda er bent á að ákvörðun um veiðar eftir næstu áramót liggi ekki fyrir.

Þá er haft eftir baráttufólki gegn hvalveiðum að þau telji ákvörðunina slæma. Hins vegar segir Patrick Ramage, hjá alþjóðlega dýraverndunarsjóðnum, að um sé að ræða skref í átt að hvalveiðibanni á Íslandi.

„Þetta er leiðinlegt en nauðsynlegt skref í átt að því að hætta hvalveiðum fyrir fullt og allt á Íslandi,“ segir hann og bætir við að allt bendi til þess að Svandís ætli sér að binda endi á hvalveiðar hér á landi.

Möguleg sniðganga Hollywood á Íslandi vegna hvalveiðanna er lítið áberandi í umfjöllun heimspressunnar. Þó er minnst á hana í frétt BBC. 

Þar er haft eftir Katrínu Oddsdóttur, lögmanni Náttúruverndarsamtaka Íslands, að þessi sniðganga sé raunhæfur möguleiki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×