Innlent

Nemendur læra um nærumhverfi sitt í Snæfellsbæ

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
 Svanborg Tryggvadóttir, grunnskólakennari, sem er ein af þeim, sem stýrir verkefninu í átthagafræði við skólann.
Svanborg Tryggvadóttir, grunnskólakennari, sem er ein af þeim, sem stýrir verkefninu í átthagafræði við skólann. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Mikið er lagt upp úr því í Grunnskóla Snæfellsbæjar að nemendur þekki sitt nánasta umhverfi og því er sérstök kennsla í átthagafræði þar sem farið er með nemendur í vettvangsferðir um sitt nærumhverfi. Skólinn fékk íslensku menntaverðlaunin á síðasta árið fyrir verkefnið.

Í Grunnskóla Snæfellsbæjar eru um 210 nemendur. Átthagafræði er hluti af námi skólans en það er þróunarverkefni sem beinist að því að efla jákvæð og virk tengsl skóla og samfélags, þekkingu nemenda á heimabyggð sinni og auka fjölbreytni í námi. Í því skyni eru farið í ferðir með nemendur innan sveitarfélagsins, eins og á Djúpalónssand þar sem nemendur sjötta bekkjar komu nýlega saman með kennurum og landvörðum í Snæfellsjökulsþjóðgarði.

„Þetta gengur út á að kynna nemendum umhverfi sitt, nærumhverfi sitt, að þeir fái tækifæri í gegnum skólagönguna að kynnast því frá ýmsum hliðum. Bæði í gegnum upplifanir eins og að fara í vettvangsferðir. Við höfum gott samstarf við nærsamfélagið, einstaklinga, fyrirtæki og félagasamtök, virkilega gott samstarf,” segir Svanborg Tryggvadóttir, grunnskólakennari við skólann.

Kennarar skólans eru himinlifandi með verkefnið, ekki síst þeir sem fara í vettvangsferðir með nemendum.

„Það er í öllum bekkjum farið í ferðir og náttúran skoðuð í kring og þau læra örnefnin og svona um nærumhverfi sitt,” segir Maríanna Sigurbjargardóttir, umsjónarkennari í 6. bekk.

Mikil ánægja er með kennsluna í átthagafræðinni.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og þetta er ekkert smá flott náttúra, sem þið eigið hérna?

„Segðu, þetta eru algjörar perlur og þær eru sko víða. Og verkefnin eru þannig að hver bekkjardeild hefur ákveðna svona bekkjanámskrá í átthagafræðinni,” segir Guðrún Jenný Sigurðardóttir, umsjónarkennari í 6. bekk.

Skólinn fékk íslensku menntaverðlaunin á síðasta ári fyrir átthagafræðina.

En hvað segja nemendur skólans, er Grunnskóli Snæfellsbæjar ekki frábær skóli?

„Ó jú, sérstaklega kennararnir, þeir eru mjög skemmtilegir, mjög,” sögðu nokkrar stelpur hressar í kór.

Nemendur skólans eru mjög ánægðir með kennarana sína eins og þessar stelpur í 6. bekk.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×