Fótbolti

Rúnar Þór til Willem II frá Öster

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúnar Þór er mættur til Hollands.
Rúnar Þór er mættur til Hollands. Twitter@WillemII

Vinstri bakvörðurinn Rúnar Þór Sigurgeirsson er genginn í raðir hollenska B-deildarliðsins Willem II frá Öster í Svíþjóð.

Keflvíkingurinn Rúnar Þór gekk í raðir Öster að loknu síðasta tímabili í Bestu deild karla. Þessi 23 ára gamli varnarmaður var ekki lengi að stimpla sig inn í Svíþjóð og var fljótlega eftirsóttur af liðum í efstu deild þar í landi en Öster spilar í B-deildinni.

Í síðustu viku greindi Fótbolti.net frá því að Willem II hefði boðið oftar en einu sinni í þennan mjög svo sóknarsinnaða vinstri bakvörð. Liðin náðu á endanum saman og það tók Rúnar Þór ekki langan tíma að semja um kaup og kjör. Það var svo fyrr í kvöld, mánudag, sem hann var tilkynntur sem nýjasti leikmaður liðsins. Hann mun klæðast treyju númer 5 og skrifar undir samning til ársins 2026.

„Willem II er gott skref fyrir mig. Hollenskur fótbolti hentar leikstíl mínum vel, ég er varnarmaður sem hef gaman að því sækja. Það er mikil ástríða og orka í mínum leik,“ sagði Rúnar Þór í viðtali á vefsíðum hollenska liðsins.

Willem II situr sem stendur í 5. sæti B-deildarinnar í Hollandi með 5 stig að loknum 3 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×