Innlent

Hreinsaði ó­vel­komna málningu af regn­boga­fánanum

Árni Sæberg skrifar
Leysiefnið kom að góðum notum.
Leysiefnið kom að góðum notum. Vísir/ÁRni

Skemmdarvargur málaði dónaleg skilaboð á regnbogafánann á Skólavörðustíg í skjóli nætur. Maður á vegum Reykjavíkurborgar var ekki lengi að mæta á staðinn í morgun og þrífa upp eftir ódáminn.

Útsýni íbúa við Skólavörðustíg í Reykjavík var ekki eins fagurt og það er venjulega. Skemmdarvargur hafði málað ófögur, en óskýr, skilaboð á fána hinsegin fólks, sem skreytir götuna.

Óttarr Makuch býr við Skólavörðustíg og leit út um gluggann í morgun. Þá blasti við hinum óskemmtileg sjón. Í skjóli nætur hafði einhver málað LGBT LOSER, að því er virðist en skilaboðin eru nokkuð óljós.

Þegar fréttamann bar að garði hafði lögregluþjónn komið sér fyrir neðarlega á Skólavörðustíg til þess að vara fólk við því að málningin væri enn blaut. 

Skömmu síðar kom á vettvang maður, sem kvaðst vera á vegum Reykjavíkurborgar, vopnaður kröftugri vatnssprautu. Fyrst um sinn gekk ekki neitt að fjarlægja hvítu málninguna af þeirri marglitu.

Eftir að hafa penslað leysiefni á Skólavörðustíginn rann málningin auðveldlega af. 

Endurtekið efni

Varaformaður Samtakanna '78 segir málið áminningu um mikilvægi þess að samtalið um hinseginleikann sé stöðugt í gangi. 

Lögregla lagði bíl sínum ofan við málninguna.Vísir/Árni

„Við höfum náttúrulega séð það síðustu ár að það hefur verið aukið bakslag í samfélaginu. Og nú á Hinsegin dögum voru tilkynnt fleiri skemmdarverk en nokkru sinni áður. Þetta er hluti af þessu stóra vandamáli, þessu raunverulega bakslagi sem er stundum erfitt að tengja svo vel við hvað við stöndum vel, réttarfarslega séð, hér á Íslandi. Ég held að þessar málningarslettur sýni það alveg skýrt að við þurfum að halda áfram þessum samræðum. Við þurfum að tala saman um hinseginleikann og halda áfram að fræða hvort annað,“ sagði Bjarndís Helga Tómasdóttir, varaformaður Samtakanna 78.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×