Fótbolti

Ig­lesias gefur ekki á kost á sér í lands­liðið vegna hegðunar for­setans

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Spilar ekki fyrir landslið Spánar fyrr en hlutirnir breytast.
Spilar ekki fyrir landslið Spánar fyrr en hlutirnir breytast. EPA-EFE/Jose Manuel Vidal

Borja Iglesias, framherji Real Betis í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í komandi verkefni vegna hegðunar Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins.

Forsaga málsins er sú að Rubiales var viðstaddur til að veita spænska kvennalandsliðinu í knattspyrnu verðlaun eftir að liðið varð heimsmeistari á dögunum. Eftir að gefa Jenni Hermoso verðlaunapening sinn þá tók hann utan um höfuð hennar og smellti af kossi.

Þrátt fyrir að Hermoso hafi staðfest að hún hafi á engan hátt samþykkt kossinn þá telur Rubiales sig ekki hafa gert neitt rangt.

Jafnframt neitar forsetinn að segja af sér en hann hefur verið harðlega gagnrýndur af hinum ýmsu leikmönnum spænska kvennalandsliðsins sem og annara landsliða. Þá hafa einstaka karlmenn látið í sér heyra, Borja Iglesias þar á meðal.

Hinn þrítugi Borja er ekki fastagestur í landsliðshópi Spánar en hefur síðan 2022 spilað tvo A-landsleiki. Þrátt fyrir að það sé með hans stoltustu augnablikum á ferlinum þá ætlar hann ekki að spila aftur fyrir landslið Spánar fyrr en eitthvað breytist.

„Ég er sorgmæddur og vonsvikinn“ segir Borja á Twitter-síðu sinni. Hann heldur svo áfram. Borja segir að gjörðir knattspyrnusambandsins í dag standi ekki fyrir það sem hann geri, hvorki sem persóna né knattspyrnumaður.

„Að klæðast treyju spænska landsliðsins er eitt það merkasta sem hefur gerst á mínum ferli. Ég veit ekki hvort það mun gerast aftur í framtíðinni en sem stendur hef ég tekið ákvörðun um að snúa ekki aftur fyrr en hlutirnir breytast og refsað verði fyrir gjörðir sem þessar.“

„Fyrir mannúðlegri og sanngjarnari fótbolta,“ sagði Borja Iglesias að endingu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×