Handbolti

Olís-deildirnar í myndavélum með gervigreind

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Eyjamenn fagna Íslandsmeistaratitlinum í maí. Spurning hvort þeir nái að verja titilinn á þessari leiktíð?
Eyjamenn fagna Íslandsmeistaratitlinum í maí. Spurning hvort þeir nái að verja titilinn á þessari leiktíð? vísir/vilhelm

Það eru innan við tvær vikur í að Olís-deildirnar í handbolta renni af stað en þrátt fyrir það hefur ekki enn verið kynnt hvernig sjónvarpsmálum verður háttað í vetur.

Samningur HSÍ við Stöð 2 Sport rann út eftir síðasta tímabil. Samningar tókust ekki um áframhaldandi samstarf og því varð HSÍ að horfa í nýjar áttir.

Samkvæmt heimildum Vísis verða allir leikir í Olís-deildunum í vetur sýndir í gegnum myndavélar frá Spiideo. Það eru myndavélar sem notast ekki við tökumenn heldur gervigreind. Lýsendur munu í flestum tilfellum vera stuðningsmenn liðanna.

Aðgengi að leikjunum verður svo hægt að nálgast í appi og í gegnum myndlykla Sjónvarps Símans.

HSÍ stefnir að því að einn leikur í hverri umferð deildanna verði í opinni dagskrá í sjónvarpi Símans. Þeir leikir verða framleiddir af fyrirtækinu Skjáskot en allir aðrir leikir eru í gegnum Spiideo-vélarnar.

Eftir því sem næst verður komist er enginn uppgjörsþáttur á teikniborðinu sem stendur.

Ekki liggur fyrir hvað áskrift að Olís-deildunum mun kosta. Fyrstu leikirnir í Olís-deild karla fara fram þann 7. september en kvennadeildin fer af stað tveimur dögum síðar.

Tímabilið hefst þó formlega þann 2. september með leikjunum í Meistarakeppni HSÍ. Þá spila Íslandsmeistarar síðasta árs við bikarmeistarana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×