Handbolti

Mögulega engir áhorfendur á HM í handbolta vegna hryðjuverkaógnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Svíar mæta Kínverjum í fyrsta leik sínum á HM 1. desember næstkomandi.
Svíar mæta Kínverjum í fyrsta leik sínum á HM 1. desember næstkomandi. getty/Slavko Midzor

Ef allt fer á versta veg gætu leikir á HM í handbolta kvenna í Svíþjóð farið fram án áhorfenda.

Hundrað dagar eru þar til Svíþjóð mætir Kína í fyrsta leik sínum á HM í handbolta. Mótið fer fram í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Riðill Íslands verður leikinn í Stafangri í Noregi. Úrslitahelgi mótsins verður í Danmörku. 

Á föstudaginn hækkaði sænska öryggislögreglan viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar úr þremur í fjóra. Ef viðbúnaðarstigið verður hækkað í fimm gæti það haft mikil áhrif á HM í handbolta.

„Þá megum við ekki hafa áhorfendur,“ sagði Stefan Lövgren, framkvæmdastjóri sænsku landsliðanna, og stjórnarformaður HM í handbolta. „Ég er ekki stressaður. Og ef þetta gerist eru mikilvægari hlutir en handboltamót.“

Ein skærasta stjarna sænska landsliðsins, Jamina Roberts, vonast til þess að ekki þurfi að grípa til örþrifaráða og hægt verði að spila fyrir framan áhorfendur á HM.

„Það er rétt fyrir öryggi okkar að engir áhorfendur verði leyfðir. Vonandi allra vegna fer þetta ekki svona langt. Ég vona að þeir finni lausn án þess að hækka viðbúnaðarstigið upp í fimm,“ sagði Roberts og bætti við að það væri eflaust erfiðara að spila fyrir framan tóma stúku á heimavelli en í öðru landi.

Svíþjóð er í A-riðli heimsmeistaramótsins ásamt Króatíu, Kína og Senegal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×