Fótbolti

Spánverjar sagðir ætla að velja sextán ára strák í A-landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hinn sextán ára gamli Lamine Yamal á fullri ferð með boltann í leik með aðalliði Barcelona.
Hinn sextán ára gamli Lamine Yamal á fullri ferð með boltann í leik með aðalliði Barcelona. Getty/Alex Caparros

Lamine Yamal er á hraðri uppleið í spænska fótboltanum og guttinn tekur mörg stór skref á ferli sínum þessa dagana.

Nú síðast slá spænskir fjölmiðlar því upp að það sé búið að velja Lamine Yamal í spænska A-landsliðið í fótbolta.

Lamine Yamal er nýbúinn að spila sinn fyrsta leik með Barcelona en hann hélt upp á sextán ára afmælið sitt í síðasta mánuði.

Yamal er samkvæmt fréttum frá Spáni í landsliðshópnum fyrir leiki á móti Georgíu og Kýpur í undankeppni EM í byrjun næsta mánaðar.

Valið á hópnum verður þó ekki endanlega gert opinbert fyrir en 1. september næstkomandi.

Spili Lamine Yamal í þessum leikjum þá verður hann yngsti landsliðsmaður Spánar frá upphafi. Metið á nú Gavi en hann var 17 ára og 62 daga gamall þegar hann lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Spán.

Yamal hefur spilað tvo leiki með Barcelona á leiktíðinni og varð í öðrum þeim yngsti leikmaðurinn í sögu Barcelona til að byrja leik með aðalliðinu.

Yamal hefur þegar vakið mikla athygli fyrir frábær tilþrif á vellinum og margir spá honum glæstum frama í fótboltanum.

Hann fæddist á Spáni 13. júlí 2007 en faðir hans er frá Marokkó og móðir hans er frá Miðbaugs-Gíneu. Strákurinn getur því mögulega valið úr þremur landsliðum.

Spili hann hinsvegar keppnisleik með Spáni þá á hann ekki lengur möguleika á því að spila með landsliði Marokkó eða landsliði Miðbaugs-Gíneu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×