Fótbolti

Mark í upp­bótar­tíma gæti reynst Herði Björg­vini og fé­lögum dýr­mætt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hörður Björgvin einbeittur á svip í leiknum í kvöld.
Hörður Björgvin einbeittur á svip í leiknum í kvöld. Vísir/Getty

Braga frá Portúgal vann 2-1 sigur á Panathinaikos þegar liðin mættust í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Hörður Björgvin Magnússon var í byrjunarliði Panathinaikos.

Um var að ræða fyrri viðureign liðanna og fór hún fram á heimavelli Braga í Portúgal. Staðan í hálfleik var 0-0 en í upphafi síðari hálfleiks skoraði Abel Ruiz fyrir Braga. Alvaro Djalo kom heimaliðinu síðan í góða stöðu þegar hann skoraði á 73. mínútu.

Allt virtist stefna í 2-0 sigur Braga en á fimmtu mínútu uppbótartíma tókst Daniel Mancini að minnka muninn fyrir Panathinaikos. Lokatölur 2-1 og allt galopið í einvíginu fyrir síðari leikinn í Grikklandi.

Hörður Björgvin Magnússon lék allan leikinn í vörn Panahinaikos í kvöld. 

Tveir aðrir leikir fóru fram í Meistaradeildinni í kvöld. Norska meistaraliðið Molde tapaði 3-2 á heimavelli gegn tyrkneska stórliðinu Galatasaray. Sigurmark Tyrkjanna kom í uppbótartíma en liðin höfðu skipst á forystunni fram að því.

Þá gerðu Maccabi Haifa og Young Boys 0-0 jafntefli í Ísrael. Síðari leikirnir í einvígjunum fara fram í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×