Innlent

„Afrekshugur” Nínu Sæmundsson kominn á Hvolsvöll

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar

Afsteypa af verki Nínu Sæmundsson, „Afrekshugur“ hefur nú verið komið fyrir í miðbæjargarðinum á Hvolsvelli en það var forseti Íslands, ásamt leikskólabörnum, sem afhjúpuðu verkið. Frumgerð verksins prýðir inn­gang­inn að Waldorf Astoria hót­el­inu í New York en sjálf er Nína er úr Fljóts­hlíðinni.

Fjölmenni safnaðist saman í miðbænum á Hvolsvelli í gær í blíðskaparveðri í sérstakri athöfn þar sem verk Nínu, “Afrekshugur” var afhjúpað formlega af Guðna Th. forseta Íslands og leikskólabörnum á Hvolsvelli. Nokkrar ræður voru haldnar og sönghópurinn Öðlingarnir sungu, ásamt leikskólabörnunum. Nína fæddist á bænum Nikulásarhúsum í Fljótshlíð 22. ágúst 1892 en systkinin voru fimmtán.

Öðlingarnir undir stjórn Guðjóns Halldórs Óskarssonar sungu tvö lög við athöfnina.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Hún er einn frægasti Rangæingur, sem við eigum og við heiðrum minningu hennar og hennar afreka í lífi og starfi með því að setja þessa styttu upp hér. Við vonum að styttan verði hvatning til að kveikja afrekshugann hjá fólki, sem þarf að horfast í augu við mótlæti í sínu lífi. Hingað getur það sótt styrkinn til þess að takast á við það,” segir Friðrik Erlingsson, formaður stjórnar „Afrekshuga“

Forseti Íslands, ásamt Friðriki Erlingssyni og Antoni Kára Halldórssyni, sveitarstjóri Rangárþings eystra. Með þeim eru sonur Friðriks, Hjalti Kiljan og Héðinn Bjarni, sonur Antons Kára.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Afrekshugur” er eitt magnaðasta listaverk Íslendings og sómir sér vel hér í hjarta bæjarins og er minnisvarði og áminning og vitnisburður um það, sem hægt er að gera ef fólki er gert kleift að elta sína drauma, láta þá rætast,” segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Eftir athöfnina var öllum gestum boðið til kaffisamsætis í umsjón kvenfélagsins á Hvolsvelli, sannkallað veisluborð.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Verkið er glæsilegt og sómir sér vel á Hvolsvelli.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×