Handbolti

Arna Valgerður tekur við KA/Þór

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arna Valgerður Erlingsdóttir er tekin við stjórnartaumunum hjá KA/Þór.
Arna Valgerður Erlingsdóttir er tekin við stjórnartaumunum hjá KA/Þór. KA.is

Arna Valgerður Erlingsdóttir hefur verið ráðin þjálfari KA/Þórs í Olís-deild kvenna í handbolta. Hún tekur við af Andra Snæ Stefánssyni sem hefur stýrt liðinu undanfarin ár.

Frá þessu er greint á heimasíðu KA þar sem segir að Arna hafi verið í lykilhlutverki á þeirri vegferð að gera KA/Þór að einu besta liði landsins þar sem félagið hefur fagnað bæði Íslands- og bikarmeistaratitli.

Arna var áður aðstoðarþjálfari liðsins og hefur þjálfað yngri flokka frá því hún var ung. Þá á hún einnig að baki 138 leiki fyrir liðið í deild og bikar sem leikmaður.

„Við erum einstaklega ánægð með að fá Örnu til starfa hjá okkur. Þegar Andri Snær sagði upp störfum var Arna strax mjög ofarlega á blaði hjá okkur. Hún hefur starfað lengi hjá félaginu, veit hvað við stöndum fyrir og er gríðarlega hæfileikaríkur þjálfari,“ sagði Stefán Guðnason, formaður kvennaráðs KA/Þórs í tilkynningu liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×