Erlent

Telja að Úkraínu­menn nái ekki mark­miði gagn­sóknar sinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Horfur Úkraínumanna í gagnsókn þeirra eru dökkar um þessar mundir.
Horfur Úkraínumanna í gagnsókn þeirra eru dökkar um þessar mundir. AP/Libkos

Úkraínuher tekst ekki að ná borginni Melitopol í suðuausturhluta landsins á sitt vald í ár, að mati bandarísku leyniþjónustunnar. Nái hann ekki að hrekja rússneska hermenn þaðan næst ekki eitt helsta markmið gagnsóknar Úkraínumanna.

Úkraínskir hermenn sækja nú í átt að Melitopol frá bænum Robotyne sem er rúma áttatíu kílómetra frá borginni. Bandaríska leyniþjónustan telur að sókn Úkraínumanna eigi eftir að stöðvast nokkra kílómetra fyrir utan Melitopol, samkvæmt heimildum Washington Post.

Melitopol nærri Asóvshafi hefur mikla hernaðarlega þýðingu. Borgin er tengd við tvær mikilvægar hraðbrautir og járnbrautarspor sem gerir rússneska innrásarliðinu kleift að flra hermenn og vistir frá Krímskaga til annarra hersetinna svæða í sunnanverðri Úkraínu. Eitt helsta markmið gagnsóknarinnar er að rjúfa landbrú sem tengir Rússland við Krímskaga sem Rússar innlimuðu ólöglega árið 2014.

Verjast af hörku með jarðsprengjum og skotgrafarhernaði

Mat leyniþjónustunnar er meðal annars sagt byggja á þeirri hörku sem Rússar hafi sýnt í að verja hertekin svæði með jarðsprengjum og skotgröfum. Úkraínumenn hafi orðið fyrir miklu mannfalli þrátt fyrir nýjan búnað frá vestrænum ríkjum, þar á meðal bandaríska brynvarða bíla, þýska skriðdreka og sérhæfð farartæki sem eiga að fjarlægja jarðsprengjur.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, viðurkenndi að gagnsókninni hefði miðað hægt en staðhæfði að Úkraínumenn gæfust ekki upp fyrr en þeir hefðu endurheimt allt það landsvæði sem Rússar hefðu sölsað undir sig.

„Okkur er sama hversu langan tíma það tekur,“ sagði Kuleba á fimmtudag.

Washington Post segir að ef markmiðið um að loka leið Rússa að Krímskaga tekst ekki geti það leitt til deilna á milli úkraínskra stjórnvalda og vestrænna bakhjarla þeirra sem hafa varið milljörðum dollara í hernaðaraðstoð og naflaskoðunar um hvers vegna árangurinn af gagnsókninni hefur ekki orðið meiri en raun ber vitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×