Erlent

Óttast að yfir sextíu hafi farist

Eiður Þór Árnason skrifar
Flóttamannasamtökin Walking Border segir um hafa verið að ræða stóran fiskveiðibát sem væri eintrjáningur. Hér sjást börn leika sér á sams konar bátum sem eru gjarnan árabátar útbúnir með því að hola út gegnheilan trjástofn.
Flóttamannasamtökin Walking Border segir um hafa verið að ræða stóran fiskveiðibát sem væri eintrjáningur. Hér sjást börn leika sér á sams konar bátum sem eru gjarnan árabátar útbúnir með því að hola út gegnheilan trjástofn. AP/Zane Irwin

Óttast er að yfir sextíu manns hafi farist á leið sinni yfir Atlantshafið eftir að bátur fannst nærri Grænhöfðaeyjum undan vesturströnd Afríku. 38 hefur verið bjargað yfir á eyjuna Sal, þar á meðal börnum á aldrinum tólf til sextán ára.

Talið er báturinn sem flutti flóttafólk hafi verið á sjó í meira en mánuð og nærri allir um borð komið frá Senegal í Vestur-Afríku. Aðrir eru sagðir vera frá Síerra Leóne og Gínea-Bissá. Ráðafólk á Grænhöfðaeyjum hefur kallað eftir aðgerðum alþjóðasamfélagsins til að koma í veg fyrir að fleira farandfólk týni lífi á háskaförum yfir hafið.

Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu en að sögn lögreglu var fyrst tilkynnt um bátinn á mánudag. Fyrstu fregnir gáfu til kynna að hann hafi sokkið en síðar var greint frá því að hann hafi verið á reki úti fyrir Grænhöfðaeyjum.

Í tjaldi við höfnina

Trébáturinn sást á sjó nærri 320 kílómetrum frá eyjunni Sal og var það áhöfn spænsks fiskveiðibáts sem tilkynnti yfirvöldum um fólkið.

Utanríkisráðuneyti Senegal hefur eftir eftirlifendum að báturinn hafi lagt af stað frá fiskveiðiþorpinu Fass Boye í Senegal þann 10. júlí með 101 um borð. Sem fyrr segir hafa enn einungis 38 farþegar komið í leitirnar.

Fulltrúi heilbrigðisyfirvalda á Sal segir að fólkið hafi verið flutt í tjöld við höfnina þar sem þau fengu vökva og heilbrigðisaðstoð. Sýni hafi verið tekin til leita að Covid-19 og Malaríu en engar slíkar sýkingar komið í ljós.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×