Skoðun

Litlir karlar drepa ljúfa risa

Rósa Líf Darradóttir skrifar

Langreyður er næst stærsta dýr á jörðinni á eftir frænku sinni, steypireyðinni. Hún er skíðishvalur sem nærist að mestu á svifkrabbadýrum. Langreyður er farhvalur og er útbreidd um heimsins höf. Þær eru hvala hraðskreiðastar og geta synt á 45 km/klst hraða. Hvalir eru meðal greindustu spendýra, félagslyndir og með einstaka samskiptahæfileika. Hlutverk þeirra má ekki vanmeta í baráttunni við loftslagsvánna. Á lífsferli sínum bindur eitt stórhveli 33 tonn af kolefni sem er á við þúsundir trjáa. Stórkostlegar verur.

Svandís Svavarsdóttir tók ákvörðun fyrr í sumar að stöðva hvalveiðar tímabundið. Grundvöllur að ákvörðun hennar var að veiðarnar stangist á við lög um velferð dýra. Það er þáttur sem fær allt of lítið vægi í ákvörðunartöku ráðamanna. Fyrir þetta á matvælaráðherra lof skilið. Í kjölfarið hefur myndast togstreita innan ríkisstjórnar. Formaður Sjálfstæðisflokks sagði sjónarmið er varða skerðingu atvinnufrelsis ofarlega í huga og að ákvörðun matvælaráðherra hafi ekki haft góð áhrif á stjórnarsamstarfið. Formaður Framsóknarflokks lýsti yfir óánægju sinni þar sem hópur fólks hafi orðið af atvinnutekjum.

Hvalveiðar uppfylla ekki lög um velferð dýra. Með öðrum orðum, hvalveiðar brjóta lög. Stuðningsmenn hvalveiða líta gjarnan fram hjá þessu aðalatriði og vísa til réttar um frelsi til atvinnu. Er skilningur manna í alvöru sá að atvinnufrelsið sé ofar öllu? Að frelsi til atvinnu heimili starfsemi sem ekki samræmist lögum landsins?

Lög um velferð dýra eru lágmarks reglur í samfélagi manna um hegðun okkar gagnvart öðrum dýrategundum. Þau eru eina björgin sem dýr eiga sér í réttarríki manna. Lögin skapa dýrum réttindi í ljósi þess að þau eru skyni gæddar verur. Réttindi sem fólki ber að virða. Sem dæmi þá greina lögin frá því hvernig skal staðið að aflífun dýra. Þau innihalda ákvæði sem hvalveiðar munu aldrei uppfylla. Þrátt fyrir kjöraðstæður við veiðar er ekki hægt að tryggja skjóta, örugga og sársaukalausa aflífun. Þetta aðalatriði má ekki gleymast.

Þá eru rök um skerðingu atvinnufrelsis hjákátleg í meira lagi. Hér er verið að stöðva starfsemi sem brýtur í bága við lög. Starfsemi sem borin er uppi af áhuga og fjárhagslegri getu auðkýfings til að stunda eigið áhugamáli. Áhugamál sem stríðir gegn hagsmunum þjóðar og náttúru. Hið sjúka er að ítök einstaklings geta hugsanlega komið af stað stjórnarkreppu þrátt fyrir að eina rökrétta niðurstaðan í máli þessu sé borðleggjandi:

Íslendingar eiga að vernda hvali en ekki pynta og drepa.

Höfundur er læknir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×