Fótbolti

Hörður Björg­vin og fé­lagar á­fram í Meistara­deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hörður Björgvin Magnússon í leik með íslenska landsliðinu.
Hörður Björgvin Magnússon í leik með íslenska landsliðinu. Getty/Robbie Jay Barratt

Landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon og liðsfélagar hans í gríska liðinu Panathinaikos eru komnir í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa lagt Marseille að velli eftir vítaspyrnukeppni. 

Panathinaikos vann fyrri leikinn í Grikklandi 1-0 og var því í góðri stöðu fyrir leik kvöldsins. Forysta liðsins var hins vegar á bak og burt strax á 2. mínútu í kvöld þegar liðin mættust í Marseille. Pierre-Emerick Aubameyang, sem gekk í raðir franska félagsins í sumar, skoraði þá eftir sendingu Ismaila Sarr.

Aubameyang kom Marseille svo 2-0 yfir með marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Staðan 2-0 í hálfleik og virtust það ætla að verða lokatölur. Þegar komið var langt fram yfir venjulegan leiktíma fengu gestirnir vítaspyrnu.

Fotis Ioannidis fór á punktinn og minnkaði muninn í 2-1. Staðan samanlagt því 2-2 og því þurfti að framlengja eftir að flautað var til loka venjulegs leiktíma. Heimamenn héldu að þeir hefðu komist yfir á 110. mínútu en myndbandsdómari leiksins dæmdi markið af vegna rangstöðu. 

Ekkert var skorað í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar reyndust gestirnir sterkari aðilinn og eiga enn möguleika á að komast í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. 

Hörður Björgvin spilaði allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá gestunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×