Fótbolti

Bellingham bestur á vellinum og skoraði í frumrauninni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Með hausinn í lagi.
Með hausinn í lagi. Getty

Real Madrid hóf leiktíðina í spænsku úrvalsdeildinni með 2-0 sigri á Athletic Bilbao. Jude Bellingham skoraði í frumraun sinni fyrir þá hvítklæddu.

Bellingham var keyptur fyrir fúlgur fjár frá Dortmund í Þýskalandi í sumar og var mættur beint í byrjunarliðið í fyrsta leik Real á leiktíðinni. Hann spilaði holunni á bakvið Brasilíumennina Rodrygo og Vinicius Junior en Frakkarnir Eduardo Camavinga og Aurelien Tchouameni voru ásamt Ernesto Valverde á bakvið hann í tígulmiðju. Toni Kroos og Luka Modric byrjuðu báðir á bekknum.

Rodrygo kom Real Madrid yfir á 28. mínútu eftir stoðsendingu Dani Carvajal sem átti ljómandi fínan leik í hægri bakverði liðsins.

Bellingham komst svo á blað átta mínútum síðar með laglegu skoti eftir hornspyrnu en sýndi fína takta í frumrauninni og var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður vallarins.

Það var þó ekki aðeins gleði hjá Madrídingum þar sem varnarmaðurinn Eder Militao fór meiddur af velli snemma í síðari hálfleik vegna hnémeiðsla. Hann gæti því verið frá í einhverjar vikur, jafnvel mánuði.

En Real hefur tímabilið á sigri og vonast eftir að endurheimta spænska meistaratitilinn úr greipum Barcelona sem vann deildina í fyrra. Barcelona hefur keppni gegn Getafe á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×