Fótbolti

Ancelotti ætlar ekki að versla nýjan markmann í fjarveru Courtois

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thibaut Courtois verður fjarri góðu gamni stærstan hluta tímabilsins. Andriy Lunin sem fylgist hér með honum mun standa í amrki Madrídinga.
Thibaut Courtois verður fjarri góðu gamni stærstan hluta tímabilsins. Andriy Lunin sem fylgist hér með honum mun standa í amrki Madrídinga. Helios de la Rubia/Real Madrid via Getty Images

Carlo Ancelotti, þjálfari spænska stórveldisins Real Madrid, segist ekki ætla að kaupa nýjan markmann í leikmannaglugganum þrátt fyrir að aðalmarkvörður liðsins, Thibaut Courtois, hafi slitið krossband á dögunum.

Courtois mun að öllum líkindum missa af stærstum hluta næsta tímabils vegna meiðslanna og því gerðu flestir ráð fyrir því að Madrídingar færu á stúfana í leit að nýjum markmanni í fjarveru hans. Ancelotti segist þó hafa fulla trú á hinum 24 ára Andriy Lunin, varamarkverði liðsins.

„Ég hef fulla trú á Lunin sem er frábær markvörður,“ sagði Ancelotti um úkraínska markmanninn.

„Hann er búinn að vera mjög góður á undirbúningstímabilinu. Hann er hæfileikaríkur og það sem hann vantar er eitthvað sem alla unga leikmenn vantar, reynslu sem hann mun nú fá.“

Madrídingar verða eins og áður segir að reiða sig af án Courtois stærstan hluta tímabilsins, en belgíski markvörðurinn var valinn besti markmaður heims á síðasta ári.

Courtois hefur leikið 230 leiki fyrir Real Madrid síðan hann gekk í raðir félagsins árið 2018, en nú verður það Andriy Lunin sem mun standa á milli stanganna þegar liðið mætir Athletic Bilbao í fyrsta leik tímabilsins í spænsku úrvalsdeildinni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×