Enski boltinn

Harry Kane í læknisskoðun hjá Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane hefur unnið nokkra gullskó sem leikmaður Tottenham.
Harry Kane hefur unnið nokkra gullskó sem leikmaður Tottenham. AP/Alastair Grant

Harry Kane hefur fengið leyfi til að ferðast til Þýskalands þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun hjá þýska liðinu Bayern München.

Það er því fátt sem stendur í vegi fyrir því að enski landsliðsfyrirliðinni spili í þýsku deildinni í vetur.

Tottenham samþykkti í gær tilboð Bayern München í stærstu stjörnu liðsins og seint í gærkvöldi fréttist af því að Kane vildi fara. Fyrr um daginn voru uppi einhverjar efasemdir um það en við lok dags kom annað í ljós.

Bayern borgar meira en hundrað milljónir evra fyrir þennan þrítuga framherja en hann átti eftir eitt ár af samningi sínum við Tottenham.

Kane hefur enn ekki unnið titil með Tottenham en hann er orðinn annar markahæsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Kane hefur skorað 213 mörk í 320 leikjum með Tottenham í ensku úrvalsdeildinni.

Met Alan Shearer er 260 mörk og ætti núna að vera hólpið þar sem Kane er að yfirgefa deildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×