Bíó og sjónvarp

Yrsa gaf Sigur­jóni og Erlingi nýjan Kulda

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Leikstjórinn Erlingur Óttar Thoroddsen, spennusagnahöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir og kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson.
Leikstjórinn Erlingur Óttar Thoroddsen, spennusagnahöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir og kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson. Vísir/Vilhelm

Yrsa Sigurðardóttir afhenti Sigurjóni Sighvatssyni og leikstjóranum Erlingi Óttari Thoroddsen fyrstu eintökin af nýrri útgáfu af spennusögunni Kulda. Samnefnd bíómynd þeirra félaga, byggð á bókinni, kemur í bíó 1. september.

Spennusagan Kuldi kom fyrst út árið 2012 og varð ein söluhæsta bók ársins. Hún hefur verið þýdd á fjölda tungumála og hafa viðtökur erlendis verið afar lofsamlegar. Jyllands-Posten í Danmörku sagði hana minna á Stephen King upp á sitt allra besta.

Í sögunni ræður ung stúlka sig til starfa á unglingaheimili á áttunda áratugnum og dvöl hennar þar umbyltir lífi hennar. Þegar ungur maður fer löngu síðar að rannsaka starfsemi heimilisins taka undarlegir atburðir að skekja tilveru hans og dóttur hans.

Nú er búið að gera kvikmynd upp úr bókinni sem Erlingur Óttar Thoroddsen leikstýrir og kemur hún í kvikmyndahús 1. september næstkomandi.

Bókin verður að bíómynd

Líkt og í Ég man þig fer Jóhannes Haukur með aðalhlutverk í myndinni. Hann leikur þó ekki sömu persónu og í fyrri myndinni enda eru þær ekki beintengdar. 

Jóhannes Haukur Jóhannesson fer með eitt af aðalhlutverkunum í Kulda.Skjáskot

Auk hans fara Elín Hall, Selma Björns, Halldóra Geirharðsdóttir, Sara Dögg Ásgeirsdóttir og Mikael Kaaber með stór hlutverk í myndinni.

Þá leikur hin fjórtán ára Ólöf Halla Jóhannesdóttir burðarhlutverk í myndinni en hún er dóttir Jóhannesar Hauks og leikur sömuleiðis dóttur hans í myndinni.

„Yrsa blandar saman ráðgátu við mögulega yfirnáttúrulega atburði. Við förum inn í smá hrollvekjufíling en ég myndi kalla myndina sálfræði-þriller frekar en hreinræktaða hrollvekju,“ sagði Erlingur Óttar aðspurður út í myndina.

Erlingur Thoroddsen er rísandi stjarna sem hrollvekjuleikstjóri en mynd hans Rökkur sem kom út 2017 vakti mikla athygli bæði á Íslandi og erlendis. Sigurjón Sighvatsson framleiðir myndina en hann á að baki langan kvikmyndagerðarferil.


Tengdar fréttir

„Í lífinu er ekkert grand plan“

Sigur­jón Sig­hvats­son er fluttur frá Hollywood og var nýlega verð­launaður fyrir frum­raun sína í leik­stjórn. Hann er samt enn á fullu í kvikmyndaframleiðslu þó hann hafi tyllt sér aðeins í leik­stjóra­stólinn. Í haust kemur hroll­vekja eftir Yrsu í bíó og fleiri myndir eru handan við hornið.

Rökkur fær verðlaun fyrir bestu kvikmyndatöku

Íslenski spennutryllirinn Rökkur hefur hlotið verðlaun fyrir bestu kvikmyndatöku á kvikmyndahátíðinni California Independent Film Festival, sem haldin er um þessar mundir í tuttugasta skiptið í San Francisco.

Erlingur mun leikstýra nýrri kvikmynd byggðri á verki Yrsu

Síðasta kvikmynd sem byggð var á verkum Yrsu var hrollvekjan Ég man þig og var henni vel tekið í íslenskum kvikmyndahúsum. Nýjasta myndin mun einnig byggja á yfirskilvitlegum grunni og fékk bókin góða dóma árið 2012 þegar hún kom út.

Góður jarðvegur fyrir hrylling á Íslandi

Það er furðulegt að Íslendingar skuli ekki framleiða meira af hrollvekjum, að mati ungs leikstjóra sem frumsýnir um helgina íslensk/amerísku hryllingsmyndina Child Eater. Myndin er framleidd í Bandaríkjunum en innblásin af íslenskri sagnahefð






Fleiri fréttir

Sjá meira


×