Fótbolti

Stuðningsmenn Juventus vilja ekki sjá Lukaku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku fann sig vel hjá Internazionale en hann hefur spilað þar á þremur af síðustu fjórum tímabilum.
Romelu Lukaku fann sig vel hjá Internazionale en hann hefur spilað þar á þremur af síðustu fjórum tímabilum. Getty/Nicolò Campo

Belgíski framherjinn Romelu Lukaku er enn að leita sér að liði og síðustu daga og vikur hefur þótt langlíkast að hann gangi til liðs við Juventus.

Öfgastuðningsmenn Juventus eru aftur á móti allt annað en ánægðir með þær fréttir og hafa mótmælt þeim ítrekað harðlega.

Þeir hafa borið borða þar sem þeir segjast ekki vilja sjá hann í búningi Juve og nú síðasta brutust þeir inn á leikvöllinn til að mótmæla komu Belgans. Þar sungu þeir að þeir vilji ekki sjá Lukaku.

Stuðningsmenn Internazionale tóku því einnig mjög illa þegar fréttist af samningaviðræðum Lukaku við Juventus.

Lukaku er því mjög óvinsæll hjá stuðningsmönnum þeirra tveggja félaga sem hafa kannski mesta þörfina fyrir þjónustu hans.

Lukaku er þrítugur og var með 10 mörk í 25 leikjum með Inter í Seríu A á síðustu leiktíð. Hann var þar á láni frá Chelsea sem hafði keypt hann frá Inter fyrir 97,5 milljónir pund asumarið 2021.

Samningur Lukaku við Chelsea nær til lok júní árið 2026 en hann er samt ekkert að fara að spila með enska liðinu.

Ítölsku liðin eru í vandræðum með að kaupa hann frá Chelsea enda verður hann ekki sendur ódýr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×