Umfjöllun og viðtöl: Valur - Stjarnan 1-1 | Allt í járnum á Origo vellinum og toppi deildarinnar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
_O2A6974 (2)
VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Valur og Stjarnan áttust við á Hlíðarenda í kvöld en Stjörnukonur eru annað af aðeins tveimur liðum sem náð hafa að vinna Íslandsmeistara Vals í Bestu deildinni í fótbolta í sumar. Þeim tókst ekki að endurtaka leikinn í kvöld.

Sædís Rún Heiðarsdóttir skoraði mark Stjörnunnar beint úr stórglæsilegri aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig á 34. mínútu. Amanda Jacobsen jafnaði svo metin á 66. mínútu en þetta var hennar fyrsta mark í deildinni eftir að hafa gengið til liðs við Val fyrr í sumar.

Staðan helst því óbreytt í Bestu deildinni, Valur jafnar Breiðablik á stigum en Blikarnir eru enn í fyrsta sætinu á markatölu. Stjarnan situr áfram í 6. sæti deildarinnar með 20 stig eftir 15 leiki.

Fyrri hálfleikur leiksins var fremur tíðindalaus fyrir utan mark Sædísar. Leikplan Stjörnunnar var að liggja þétt til baka, beita skyndisóknum og háum boltum inn fyrir til að skapa sér færi. Það gekk vel varnarlega en þegar þær unnu boltann af Val tókst illa að refsa þeim fram á við.

Valskonur héldu ágætlega í boltann, færðu hann vel milli svæða og reyndu margar fyrirgjafir. En þéttur varnarpakki Stjörnunnar gaf engin færi á sér. Einu marktilraunir Vals voru skot fyrir utan teig og ekkert þeirra rataði á markið.

Það gerðist svo loksins í seinni hálfleik að eitt þessara skota rataði á markið. Þá tók Stjarnan markspyrnu upp völlinn, Lára Kristín vann skallabaráttu inni á miðsvæðinu og kom boltanum á Amöndu Jacobsen. Hún sneri við rétt fyrir utan vítateig og hleypti af algjörum þrumufleyg, óverjandi fyrir markvörð Stjörnunnar.

Valskonur færðu sig í kjölfarið enn ofar á völlinn í leit að sigurmarki en þéttur varnarleikur Stjörnunnar gaf sig ekki og lokatölur urðu 1-1 jafntefli.

Afhverju endaði leikurinn með jafntefli?

Það mætti kalla þetta sanngjarnt jafntefli, hvorugu liðinu tókst að skapa sér mörg hættuleg færi. Valskonum tókst illa að spila sig í gegnum þéttan varnarpakka og Stjörnukonur voru fremur óákveðnar fram á við og nýttu sóknir sínar illa.

Hverjar stóðu upp úr?

Amanda Jacobsen átti flottan leik í fremstu línu Vals, var fínn uppspilspunktur hjá liðinu og tókst að skapa sér fínar stöður inni á vellinum en fékk ekki næga þjónustu frá liðsfélögum sínum.

Hvað gekk illa?

Valur tapaði boltanum oft á vondum stöðum inni á vellinum, áttu margar misheppnaðar sendingar á miðsvæðinu en sem betur fer fyrir þær gekk Stjörnunni illa að nýta sér þeirra mistök.

Hvað gerist næst?

Valur gerir sér ferð norður á Akureyri næsta þriðjudag og mætir þar Þór/KA sem eru í fjórða sæti deildarinnar.

Stjarnan mætir toppliði deildarinnar, Breiðabliki, miðvikudaginn 16. ágúst.

Pétur: Mér fannst þetta ekki sanngjarnt jafntefli og Kristjáni finnst það örugglega ekki heldur

Pétur oft verið sáttari en í kvöldVísir/Vilhelm

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, var óánægður með frammistöðu liðsins í fyrri hálfleik.

„Mér fannst við ekki góðar í fyrri hálfleik, vorum rosalega rólegar, en seinni hálfleikurinn var fínn hjá okkur. En þetta var bara hörkuleikur.“

Hann ítrekar að spilamennska liðsins í fyrri hálfleik hafi orðið þeim að falli, en gefur Stjörnunni hrós fyrir sitt upplegg.

„Ég veit það ekki, mér fannst þetta ekki sanngjarnt jafntefli og Kristjáni finnst það örugglega ekki heldur. Þær bara róuðu leikinn rosalega mikið niður og við gengum inn í það í staðinn fyrir að gera eitthvað allt annað. Eins og ég segi vorum við bara allt of rólegar í fyrri hálfleik.“

Nýliði Vals, Amanda Jacobsen, skoraði sitt fyrsta mark eftir að hafa gengið til liðs við Val fyrir tæpum mánuði síðar. Þjálfarinn segir hana hafa staðið sig vel þessar fyrstu vikur.

„Bara mjög vel, hún er góð í fótbolta og alveg frábært mark sem hún skorar, gaman að sjá það.“

Næsti leikur Vals er á þriðjudaginn, en þar mæta þær Þór/KA á Akureyri.

„Það er alltaf gaman að koma á Akureyri og alltaf erfiðir leikir þar“ sagði Pétur að lokum.

Amanda: Mikilvægt að jafna en svo svekkjandi að ná ekki að klára leikinn

Amanda Jacobsen skoraði sitt fyrsta mark í Bestu deildinni í sumar. Þetta var hennar þriðji leikur með liðinu en hún gekk til liðs við Val frá Kristianstad í Svíþjóð fyrir tæpum mánuði síðan.

„Það var bara mjög gaman og mikilvægt að jafna en svo svekkjandi að ná ekki að klára leikinn.“

Hún tekur undir orð þjálfara síns að fyrri hálfleikur liðsins hafi ekki verið nógu góður.

„Mér fannst við byrja leikinn mjög illa og við vorum ekki sáttar í hálfleik. Síðan komum við sterkari út í seinni hálfleikinn og mér fannst við góðar en það vantaði svolítið upp á að fá færin og klára þau.“

Hún segir fyrstu vikurnar með Val hafa gengið vel og telur íslensku deildina góðan stað til að bæta sinn leik.

„Bara mjög góðar, ég er mjög sátt að vera komin aftur. Það er mjög gott að vera komin aftur heim og ég held að ég geti bætt mig helling á því að vera hér í Val.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira