Erlent

Saka Rússa um að ráðast á viðbragðsaðila

Kjartan Kjartansson skrifar
Karlmaður ber særða kona í sjúkrabíl eftir flugskeytaárás Rússa á Pokrovsk í Donetsk-héraði í gær
Karlmaður ber særða kona í sjúkrabíl eftir flugskeytaárás Rússa á Pokrovsk í Donetsk-héraði í gær AP/úkraínska neyðarþjónustan

Úkraínsk stjórnvöld sökuðu rússneska herinn um að beina spjótum sínum sérstaklega að björgunarfólki í flugskeytaárásum sem voru gerðar á borgina Pokrovsk í austanverðri Úkraínu í gærkvöldi. Fimm féllu í árásinni.

Lögreglumenn, sjúkraliðar og hermenn voru enn að leita að fólki í húsarústum eftir flugskeytaárás Rússa í miðborg Pokrovsk þegar annað rússneskt flugskeyti kom niður á sama stað, innan við fjörutíu mínútum frá því fyrra, að sögn Pavlo Kyrylenko, ríkisstjóra Donetsk-héraðs.

Hann fullyrðir að fimm óbreyttir borgarar hafi fallið auk eins sjúkraliða og eins hermanns. Tugir til viðbótar hafi særst, flestir þeirra lögreglumenn, sjúkraliðar og hermenn sem reyndu að aðstoða fórnarlömb fyrri árásarinnar. Tólf hæða íbúðablokk, hótel, apótek, tvær verslanir og tvö kaffihús hafi skemmst í árásinni.

„Þeir vissu að það væru særðir undir rústunum, þeir þurftu að bregðast við, að grafa, að leita, að bjarga. En óvinurinn reiddi aftur til höggs vísvitandi,“ sagði Ivan Vyhivskyi, yfirmaður úkraínsku ríkislögreglunnar.

Rússneska varnarmálaráðuneytið fullyrti að flugskeytin hefðu hæft stjórnstöð úkraínska hersins í borginni. AP-fréttastofan segist hvorki hafa getað staðfest sannleiksgildi fullyrðinga Rússa né Úkraínumanna um árásina enn sem komið er.

Rússneski herinn hefur þó ítrekað beitt þeirri aðferð að beina fallbyssuhríð eða flugskeytum á sama skotmark og hann skaut á um hálftíma áður. Viðbragðsaðilar hafi því oft verið fórnarlömb þeirra. Rússar beittu sama bragði þegar þeir hlutuðust til í borgarastríðinu í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×