Innlent

Íslensk ungmenni geta ferðast og starfað í Kanada í allt að tvö ár

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá undirrituninni á föstudag.
Frá undirrituninni á föstudag. Stjórnarráðið

Íslensk ungmenni á aldrinum 18 til 30 ára munu geta ferðast og starfað í Kanada í allt að tvö ár þökk sé nýundirrituðum samningi. Um er að ræða gagnkvæman samning sem tryggir ungu fólki frá Kanada sömu réttindi.

Samkomulag milli Íslands og Kanada um vinnudvöl ungmenna var undirritað á föstudag. Samningurinn kveður á um að ungmenni á þessum aldri geti ferðast og starfað í Kanada í allt að 12 mánuði, með möguleika á að framlengja dvölina um 12 mánuði.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem stödd er í Winnipeg í Kanada í tilefni af Íslendingadeginum í Manitoba, undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands. Áslaug Arna tók þar þátt í hátíðarhöldum tengdum Íslendingadeginum, þar á meðal skrúðgöngu, fjallkonuhádegisverði og móttöku formanns Íslendingadagsins, ásamt því að flytja ávarp við hátíðarhöldin.

„Við erum stolt af þessu samstarfi við Kanada. Það gefur íslenskum ungmennum tækifæri á að kynnast ólíkri menningu og víkka sjóndeildarhringinn, ásamt því að gera þeim kleift að ná sér í verðmæta starfsreynslu á alþjóðlegum vettvangi,“ er haft eftir ráðherra á vef stjórnarráðsins.

Gert er ráð fyrir því að samningurinn verði innleiddur árið 2024, þegar að allar kröfur hafa verið uppfylltar. Samningurinn er gagnkvæmur, en það var Marie-France Lalonde, þingritari ráðherra innflytjenda, flóttamanna og ríkisborgararéttar sem undirritaði samninginn fyrir hönd Kanada. Hann mun gera 120 ungmennum frá hvoru landi fyrir sig kleift að dvelja og starfa í Kanada eða á Íslandi í allt að 24 mánuði.

Samningurinn verður þriðji vinnudvalarsamningurinn sem íslensk ungmenni geta nýtt sér, en þegar eru í gildi slíkir samningar við Bretland og Japan. 

„Þá styrkir samningurinn enn frekar tengslin milli Íslands og Kanada sem byggjast á góðu samstarfi ríkjanna og sameiginlegum gildum,“ segir í tilkynningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×