Fótbolti

Segir klúður Þjóðverja það óvæntasta í sögu kvennaboltans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lea Schüller og stöllur hennar í þýska landsliðinu hafa lokið leik á HM.
Lea Schüller og stöllur hennar í þýska landsliðinu hafa lokið leik á HM. getty/Joe Prior

Fyrrverandi landsliðskona Englands í fótbolta segir að það að Þýskaland hafi ekki komist upp úr sínum riðli á HM sé það óvæntasta í sögu kvennaboltans.

Þýskaland, sem varð heimsmeistari 2003 og 2007, féll úr leik í riðlakeppninni eftir að hafa mistekist að vinna Suður-Kóreu í dag. Leikurinn fór 1-1 og Kólumbía og Marokkó fóru áfram á kostnað Þýskalands.

„Vá, ég er hreinlega í áfalli. Þetta er það óvæntasta í sögu kvennaboltans,“ sagði Fara Williams, fyrrverandi leikmaður enska landsliðsins, á BBC.

„Fyrir Þýskaland, silfurlið síðasta Evrópumóts, að vera slegið út úr riðlakeppninni eftir að hafa verið talið sigurstranglegast er fyrir mér það óvæntasta í sögu kvennaboltans. Frammistaða Þjóðverja í síðustu tveimur leikjunum olli miklum vonbrigðum svo þetta var sanngjarnt.“

Þýskaland rústaði Marokkó, 6-0, í fyrsta leik sínum í H-riðli en tapaði svo fyrir Kólumbíu, 1-2, í öðrum leiknum. Í leiknum gegn Suður-Kóreu í dag lenti Þýskaland 0-1 undir strax á 6. mínútu. Alexandra Popp jafnaði þremur mínútum fyrir hálfleik en Þjóðverjum tókst ekki að skora sigurmarkið sem hefði fært þeim sæti í sextán liða úrslitum.

Liðið sem fékk silfur á EM í fyrra og er í 2. sæti á styrkleikalista FIFA er því úr leik á HM og á heimleið með skottið á milli lapppanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×