Viðskipti innlent

María ráðin nýr fjár­mála­stjóri HR

Eiður Þór Árnason skrifar
María Ingibjörg Jónsdóttir hefur mikla reynslu af fjármálastjórnun.
María Ingibjörg Jónsdóttir hefur mikla reynslu af fjármálastjórnun. Aðsend/Vísir/Vilhelm

María Ingibjörg Jónsdóttir hefur verið ráðin nýr fjármálastjóri Háskólans í Reykjavík (HR). Hún tekur við starfinu af Ninju Ýr Gísladóttur.

Fram kemur í tilkynningu frá skólanum að María sé viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hafi yfir tveggja áratuga reynslu af fjármálastjórnun, bæði á Íslandi og erlendis. Hún er meðal annars sögð hafa starfað hjá HPP Solutions og Héðni í Hafnarfirði, Cavotec í Noregi og Þýskalandi og Tern og Mekka Wines & Spirits á Íslandi.

Að sögn HR mun María sjá um daglegan rekstur fjármálasviðs háskólans, umsjón og ábyrgð á rekstri bókhalds, áætlunargerð og eftirfylgni, uppgjör og umbótastarf sviðsins. Fjármálastjóri hafi jafnframt umsjón með gerð ársreikninga skólans, dótturfélaga og tengdra félaga, ásamt því að sjá um margvíslega upplýsingagjöf, greiningarvinnu og ráðgjöf til starfsfólks og stjórnenda.

Um 4.300 nemendur stunda nú nám við HR í sjö deildum og er starfsfólk um 250 talsins, auk 350 stundakennara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×