Erlent

Bæta ferða­mönnu­m upp tjónið með ó­keypis ferð til Ródos

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Mitsotakis greindi frá tilboðinu í dag.
Mitsotakis greindi frá tilboðinu í dag. AP

Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðhera Grikklands, tilkynnti í dag að ferðamenn sem flýja þurftu eyjuna Ródos vegna gróðurelda sem upp komu í síðasta mánuði fái að dvelja á eyjunni í eina viku næsta sumar, án endurgjalds.

Forsætisráðherrann greindi frá þessu í dag. Um tuttugu þúsund ferðamönnum var gert að flýja eyjuna, sem er fjölfarinn ferðamannastaður, í síðasta mánuði. Samkvæmt The Guardian voru þær björgunaraðgerðir stærsta rýming vegna náttúruhamfara í sögu Grikklands.

Að sögn Mitsotakis höfðu eldarnir áhrif á um fimmtán prósent eyjunnar. Hann segir ástandið nú aftur komið í réttar skorður þrátt fyrir mikið tjón. 

Vill sýna ferðamönnum náttúrufegurðina

Mitsotakis var gestur í sjónvarpsþættinum Good Morning Britain á sjónvarpsstöðinni ITV í dag. „Í samstarfi við sveitarfélögin munu grísk yfirvöld bjóða öllum þeim sem flýja þurftu eyjuna í fríinu sínu vegna eldanna upp á viku dvöl á Ródos næsta vor og næsta haust, til þess að tryggja að þeir komi aftur og njóti náttúrufegurðar eyjunnar,“ sagði hann í þættinum.

Hann gaf ekki frekari upplýsingar um hvernig ferðunum verður háttað eða hvort flugferðir yrðu innifaldar í tilboðinu. 

Engir eldar sem stendur

Gróðureldar loguðu á mörgum stöðum á Grikklandi í júlí en auk Ródos urðu eyjurnar Korfu og Evia og svæði umhverfis Aþenu eldunum að bráð. 

Þá sagði Mitsotakis í þættinum að sem stendur logi engir eldar á landinu og veðurhorfur næstu tvær vikurnar lofi góðu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×