Innlent

Vin­sælu tjald­svæði við Selja­lands­foss lokað

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tjaldstæðið við Hamragarða rétt hjá Seljalandsfossi hefur um árabil verið eitt vinsælasta tjaldstæði landsins. Sögu þess er lokið.
Tjaldstæðið við Hamragarða rétt hjá Seljalandsfossi hefur um árabil verið eitt vinsælasta tjaldstæði landsins. Sögu þess er lokið. Vísir/Vilhelm

Vin­sælu tjald­svæði við Hamra­garða, rétt hjá Selja­lands­fossi, hefur verið lokað. Þá er um­ferð þeirra sem heim­sækja Gljúfra­búa beint á bíla­stæðið við Selja­lands­foss. Veginum að fossinum var lokað um stund í gær eftir að rúta fór þar út af veginum.

„Í skipu­lagi sem var sam­þykkt 2019 var gert ráð fyrir því að tjald­svæðið yrði víkjandi. Og svo er í plönum sveitar­fé­lagsins og land­eig­enda að byggja upp svæðið upp í sam­einingu og að gamli Hamra­garðar­bærinn gangi í endur­nýjun líf­daga og verði allur byggður upp,“ segir Anton Kári Hall­dórs­son, sveitar­stjóri Rang­ár­þings eystra í sam­tali við Vísi.

Hann segir að ekki hafi þótt á­stæða til á sínum tíma að sveitar­fé­lagið stæði í slíkum tjald­svæða­rekstri. Þeim rekstri hafi verið beint annað.

„Auð­vitað var þetta æðis­legt tjald­svæði en það er upp á á­sýnd svæðisins er náttúru­lega líka gott að vera laus við hús­bílana og tjöldin þarna, af því að þá nýtur svæðið sín náttúru­lega miklu betur.“

Hann segir skipu­lags­breytingar við Selja­lands­foss vera verk í vinnslu. Þar þurfi að ná utan um verk­efnið og þá sé gert sé ráð fyrir því að þeir sem heim­sæki Gljúfra­búa leggi bílum sínum við Selja­lands­foss.

„Af því að það er engin þjónusta eftir við hin bíla­stæðin við Gljúfra­búa. Þetta var allt í lagi á meðan þar var enn þjónusta og klósettin opin. En við lendum í vand­ræðum ef við missum alla bíla­um­ferð þangað af því að þar er engin að­staða fyrir fólk.“

Vegalokunin vakti mikla athygli en um tímabundna ráðstöfun var um að ræða, jafnvel þó að tjaldsvæðinu við Hamragarða hafi verið lokað.

Vegurinn opinn að nýju

Leið­sögu­menn urðu þess varir í gær að veginum að Gljúfra­búa hafði verið lokað með plast­borða. Heitar um­ræður sköpuðust um lokunina inni á Face­book hópi leið­sögu­manna, hóp­stjóra og farar­stjóra þar sem stéttin velti vöngum yfir því hver stendur að lokuninni. Lokunin féll í grýttan jarð­veg og veltu leið­sögu­menn því upp hvort leyfi hafi fengist hjá Vega­gerðinni fyrir lokuninni.

„Ég fékk út­skýringar á þessari lokun,“ segir Anton. „Ekki var um neina „harða“ lokun að ræða. Gulur borði var strengdur upp á meðan var verið að vinna að því að losa upp rútu sem þarna fór út af. Skilst að borðinn hafi verið tekinn niður.“

Hann segir að sér sé ekki kunnugt um að slys hafi orðið á fólki vegna rútu­slyssins. Um smá­vægi­legt at­vik hafi verið að ræða. Sér sé ekki kunnugt um að al­gengt sé að veginum sé lokað með þessum hætti.

Í svörum frá Vega­gerðinni vegna málsins kemur fram að Vega­gerðin sé ekki veg­haldi að um­ræddum vegi, eins og því er lýst. Vegurinn er í eigu sveitar­fé­lagsins og er sem slíkur einka­vegur, sem þýðir að eig­anda er heimilt að loka veginum fyrir um­ferð al­mennings.

„Rétt vestan við veginn sem lokað var er Þórs­merkur­vegur (249) sem liggur frá Hring­veginum inn í Þórs­mörk. Sá vegur er þjóð­vegur og er ætlaður al­menningi til frjálsrar um­ferðar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×