Sport

Síðasta heimsmetið hans Michael Phelps er fallið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Phelps með Leon Marchand eftir að hafa afhent honum HM-gullið.
Michael Phelps með Leon Marchand eftir að hafa afhent honum HM-gullið. AP/David J. Phillip

Franski sundmaðurinn Leon Marchand sló í gær heimsmetið í 400 metra fjórsundi en þetta gerði hann á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Fukuoka í Japan.

Marchand kom í mark á 4:02.50 mínútum og bætti gamla heimsmetið um meira en sekúndu. Þetta var auðvitað líka Evrópumet og mótsmet hjá honum.

Marchand vann heimsmeistaratitilinn með miklum yfirburðum en hann kom í mark meira en fjórum sekúndum á undan Bandaríkjamanninum Carson Foster.

Þetta var stórmerkilegt met því það var eina heimsmetið sem var enn í gildi frá mögnuðum feril bandaríska sundmannsins Michael Phelps sem á sínum tíma vann 23 Ólympíugull, 28 Ólympíuverðlaun og 65 gull á stórmótum.

Michael Phelps hafði átti metið í 400 metra fjórsundi síðan árið 2008.

Phelps synti á 4:03.84 mínútum í Peking 2008 þegar hann tryggði sér Ólympíugullið.

Phelps hafði áður misst heimsmet sín í 200 metra skriðsundi, 100 metra flugsundi, 200 metra flugsundi og 200 metra fjórsundi. Hann var búinn að eiga að minnsta kosti eitt gildandi heimsmet í 21 ár samfellt.

Phelps var mættur til Japans og afhenti Marchand heimsmeistaragullið. Þjálfari Marchand er einmitt gamli þjálfari Phelps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×