Innlent

Maður reyndi að stela reið­hjóli með öxi

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Tilraunin átti sér stað við verslunina Ellingsen fyrr í dag.
Tilraunin átti sér stað við verslunina Ellingsen fyrr í dag.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú tilraun til hjólaþjófnaðar sem átti sér stað við reiðhjólaverslunina Ellingsen á Granda. Öxi var notuð við tilraunina.

Að sögn sjónarvotta komu eigendur hjólsins að þjófnum fyrir utan verslunina fyrr í dag þar sem hann var að bisa við að reyna að losa hjólalásinn.

Þegar hann var spurður hvað hann væri að gera sagðist hann vera að losa lásinn á hjólinu sínu. Þegar honum var bent á að þetta væri alls ekki hjólið hans heldur þess sem spurði tók hann á rás.

Þjófurinn bíræfni sneri hins vegar aftur að vörmu spori með öxi í hönd og lét höggin dynja á lásnum. Þegar það gekk ekki og hringt var á lögreglu lét hann sig hverfa.

Að sögn lögreglu stendur yfir rannsókn á málinu. Maður sé grunaður um tilraun til hjólaþjófnaðar en hafi ekki sýnt af sér ógnandi tilburði við fólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×