Fótbolti

Á­frýjun Santi Mina hafnað og dómurinn fyrir kyn­ferðis­brot stendur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Santi Mina var á láni hjá sádiarabíska félaginu Al Shabab á síðustu leiktíð.
Santi Mina var á láni hjá sádiarabíska félaginu Al Shabab á síðustu leiktíð. Vísir/Getty

Spánverjinn Santi Mina sér fram á fjögur ár í fangelsi þar í landi eftir að áfrýjun hans á dómi vegna kynferðisbrots var vísað frá í dag. 

Santi Mina er leikmaður Celta Vigo á Spáni en hefur einnig leikið fyrir Valencia á sínum ferli. Í maí í fyrra var hann, ásamt félaga sínum, dæmdur fyrir kynferðisbrot sem átti sér stað árið 2017. Mina og vinur hans, David Goldar, réðust þá á konu í borginni Mojácar.

Mina var dæmdur í fjögurra ára fangelsi og sá fram á fangelsisvist þar sem dómurinn var lengri en tvö ár. Hann áfrýjaði hins vegar dómnum og var frjáls ferða sinna á meðan málið var tekið fyrir á næsta dómsstigi.

Celta Vigo lánaði hann til sádiarabíska félagsins Al Shabab á síðustu leiktíð. Hann sneri hins vegar aftur til æfinga hjá Celta í upphafi síðustu viku en Rafael Bentiez er nýtekinn við knattspyrnustjórastöðunni hjá félaginu.

Í dag birti áfrýjunardómstóllinn í Andalúsíu hins vegar úrskurð sinn. Áfrýjun Mina var vísað frá en hann á enn möguleika á því að áfrýja til hæstaréttar. Hann verður því að öllum líkindum áfram frjáls ferða sinna þar til endanleg niðurstaða er komin í málið.

Celta Vigo ætlar sér ekki að halda Mina hjá félaginu í vetur þó hann muni ekki sitja á bakvið lás og slá. Félagið ætlar sér að lána Mina til annars félags en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við Celta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×