Fótbolti

Barcelona kaupir efni­legasta fram­herja Brasilíu síðan Ron­aldo skaust fram á sjónar­sviðið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vitor Roque er með efnilegustu framherjum heims um þessar mundir.
Vitor Roque er með efnilegustu framherjum heims um þessar mundir. EPA-EFE/Hedeson Alves

Spánarmeistarar Barcelona tilkynntu í dag kaup félagsins á brasilíska framherjanum Vitor Hugo Roque Ferreira. Hann kemur frá Athletico Paranaense í heimalandinu. 

Roque er aðeins 18 ára gamall og var einkar eftirsóttur í sumar. Hann ákvað á endanum að ganga í raðir Barcelona sem borgar 30 milljónir evra [4,4 milljarða íslenskra króna] fyrir kauða. Framherjinn mun þó ekki færa sig yfir til Katalóníu fyrr en sumarið 2024.

Kaupverðið gæti á endanum tvöfaldast þar sem fjölmargar árangurs tengdar greiðslur voru í samkomulagi félaganna.

Framherjinn hefur skorað 22 mörk í 66 leikjum fyrir Paranaense og varð í mars yngsti landsliðsmaður í sögu Brasilíu. Hann segir að vistaskiptin séu „draumur að rætast.“ 

Talað er um Roque sem efnilegasta brasilíska framherjann síðan Ronaldo Luís Nazário de Lima skaust upp á stjörnuhimininn með Cruzeiro árið 1993.

Roque skrifaði undir sjö ára samning í Katalóníu og fetar þar með í fótspor Ronaldo sem lék með Börsungum tímabilið 1996-1997. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×