Innlent

Stal bíl og ók undir á­hrifum með lögguna á hælunum

Kolbeinn Tumi Daðason og Oddur Ævar Gunnarsson skrifa
Lögreglubíllinn var fluttur af vettvangi.
Lögreglubíllinn var fluttur af vettvangi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu naut liðsinnis sérsveitarinnar í umfangsmiklum aðgerðum í Reykjavík, Garðabæ og Hafnarfirði þar sem ökumanni Land Cruiser jeppa var veitt eftirför. Um stolinn bíl var að ræða en engan sakaði þrátt fyrir að lögreglubíll hafi hafnað utan vegar við eftirförina.

Fjölmargar ábendingar bárust fréttastofu um brunandi lögreglubíla frá Reykjavík og suður í Garðabæ og Hafnarfjörð. Á myndum sem bárust fréttastofu sést hvernig einn lögreglubíll varð fyrir tjóni nærri IKEA. Svo virðist sem hann hafi ekki náð beygju á mikilli ferð og hafnað utan vegar.

Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri í Hafnarfirði, segir í samtali við Vísi að lögreglu hafi borist tilkynning um stolinn bíl. Ökumaður bílsins hafi þá flúið vettvang á hinum stolna jeppa. 

Unnið er að viðgerðum á ljósastaurnum sem lögreglubíllinn hafnaði á.Vísir/Lovísa

Lögreglan veitti ökumanninum eftirför að Kaplakrika í Hafnarfirði og svo á Reykjanesbrautinni áður en jeppinn brunaði inn í Setbergið.  Þá kom lögreglan upp lokunarpósti um tíma nærri afleggjaranum inn í Austurhraun þar sem Marel er með höfuðstöðvar sínar. Að lokum tókst að stöðva jeppann.

Sævar segir að betur hafi farið en áhorfðist og engan hafi sakað, ekki heldur lögreglumenn sem lentu utan vegar og á ljósastaur.  Maðurinn sem handtekinn var er að sama skapi grunaður um akstur undir áhrifum.

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×