Fótbolti

Langmarka­hæst í deildinni en ekki pláss fyrir hana í ís­lenska lands­liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bryndís Arna Níelsdóttir hefur komið að fjórtán mörkum í tólf leikjum með Val í Bestu deildinni í sumar.
Bryndís Arna Níelsdóttir hefur komið að fjórtán mörkum í tólf leikjum með Val í Bestu deildinni í sumar. Vísir/Sigurjón

Valskonan Bryndís Arna Níelsdóttir er ekki í íslenska landsliðshópnum sem undirbýr sig nú fyrir tvo vináttulandsleiki á móti Finnlandi og Austurríki.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins, valdi hana ekki í upphafshópinn sinn og hún hefur ekki heldur verið kölluð til í þeim þremur breytingum sem landsliðsþjálfarinn hefur þurft að gera á hópnum sínum. Allar þær breytingar tengdust þó varnarmönnum hópsins.

Frá því að Þorsteinn tilkynnti landsliðshópinn sinn 29. júní síðastliðinn þá hefur Bryndís Arna spilað tvo leiki og komið alls að sex mörkum í þeim. Það mætti halda að hún hafi óbeint verið að senda landsliðsþjálfaranum smá skilaboð.

Hún var með tvö mörk og eina stoðsendingu í 3-2 sigri á FH í Kaplakrika og einnig með tvö mörk og eina stoðsendingu í 3-0 sigri á Selfossi á Selfossi fimm dögum síðar.

Nú er svo komið að Bryndís Arna er komin með ellefu mörk í Bestu deildinni í tólf leikjum og hefur að auki gefið þrjár stoðsendingar.

Hún er langmarkahæsti leikmaður deildarinnar og er eins og er með sex marka forskot á næstu leikmenn á listanum.

Bryndís Arna Níelsdóttir hélt upp á tvítugsafmælið sitt fyrr í sumar og hefur því tímann fyrir sér til að vinna sér sæti í A-landsliðinu.

Það er samt skrýtið að langmarkahæsti leikmaður Bestu deildarinnar fái ekki tækifæri til að sýna sig í tveimur vináttulandsleikjum.

Hún var að glíma við meiðsli og það var skýringin sem Þorsteinn gaf þegar hann valdi liðið. Síðan hefur hann samt verið að gera breytingar á hópnum sínum og Bryndís Arna hefur raðað inn mörkum í leikjum með Val.

Það verður hins vegar erfitt fyrir Þorstein að ganga fram hjá henni í leikjunum í haust haldi Bryndís Arna áfram að vera á skotskónum í Bestu deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×