Körfubolti

Allt annað að sjá Wembanyama í leik númer tvö

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Wembanyama hitti vel í nótt og sýndi þar af hverju menn eru svo spenntir fyrir honum.
Victor Wembanyama hitti vel í nótt og sýndi þar af hverju menn eru svo spenntir fyrir honum. AP/John Locher

Victor Wembanyama leit ekki út eins og undrabarn í fyrsta leik sínum í Sumardeildinni en það var allt annað upp á teningnum í nótt.

Hinn nítján ára gamli Wembanyama var valinn fyrstur af San Antonio Spurs í nýliðavalinu og væntingarnar hafa ekki verið meiri til leikmanns síðan að LeBron James kom inn í deildina fyrir tuttugu árum.

Wembanyama er 226 sentimetra leikmaður sem hefur boltameðferð bakvarðar, er góð þriggja stiga skytta, með góðan leikskilning og er auk þess frábær varnarmaður.

Eftir að hafa klikkað á ellefu af þrettán skotum sínum í fyrsta leiknum þá var Wembanyama heitur í leik tvö.

Wembanyama skoraði 27 stig á 27 mínútum auk þess að taka 12 fráköst og verja þrjú skot. Hann hitti úr 9 af 14 skotum sínum.

Wembanyama hafði verið með 9 stig og 8 fráköst í fyrsta leiknum þar sem taugarnar voru greinilega að gera honum lífið leitt. Að þessu sinni hitti hann meðal annars úr tveimur fyrstu þriggja stiga skotum sínum.

San Antonio Spurs tapaði reyndar leiknum 85-80 á móti Portland Trail Blazers.

„Ég vildi að við hefðum unnið leikinn. Mér finnst að ég hefði getað gert meira til að hjálpa liðinu að vinna leikinn. Við verðum að halda áfram að læra. Við spiluðum ekki okkar besta leik í fyrstu þremur leikhlutunum en svo vorum við með yfirburði í þeim fjórða. Það sýnir persónuleika liðsins,“ sagði Victor Wembanyama.

„Ég persónulega tel að það sé eðlilegt að verða betri með hverjum leik. Þetta var bara fyrsti leikurinn minn fyrir tveimur dögum,“ sagði Wembanyama.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×