Erlent

Bjargaði kúm úr logandi hlöðu

Máni Snær Þorláksson skrifar
Eldur logaði í hlöðunni en lögreglumanninum tókst að bjarga öllum kúnum sem voru fastar.
Eldur logaði í hlöðunni en lögreglumanninum tókst að bjarga öllum kúnum sem voru fastar. Facebook

Lögreglumaður í Wisconsin ríki í Bandaríkjunum bjargaði á dögunum þremur kúm úr logandi hlöðu. Næturvakt hans var að ljúka þegar hann kom auga á reyk sem kom úr hlöðu á bóndabæ. Hann mætti á vettvang og fór í hlöðuna þar sem hann fann kýrnar fastar.

Lögreglustöðin í borginni Sturgeon Bay birti upptöku úr búkmyndavél Andrew Crabb, lögreglumannsins sem um ræðir, sem sýnir hvernig hann hjálpaði kúnum. 

Þar má sjá hvernig hann fer inn í hlöðuna og opnar hlið svo kýrnar komist út. Crabb þurfti ekki að eyða miklum tíma í að koma kúnum út því þær hlupu úr hlöðunni um leið og hliðið opnaðist.

„Þegar ég gerði mér grein fyrir því sem var að gerast inni í þessari hlöðu, þá sá ég að hliðið var ekki að fara að opnast og þessar kýr myndu ekki lifa þetta af,“ er haft eftir Crabb í umfjöllun Fox News um málið.

Þá sagði Crabb að kýrnar væru vanalega geymdar í hlöðunni sem um ræðir yfir nóttina þar sem þær væru „gjarnar á að flýja.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×