Innlent

Eld­­gos muni ekki fjölga ferða­­mönnum í sumar

Máni Snær Þorláksson skrifar
Sveinn Birkir Björnsson segir að eldgos muni ekki hafa mikil áhrif á komu ferðamanna til landsins til skemmri tíma.
Sveinn Birkir Björnsson segir að eldgos muni ekki hafa mikil áhrif á komu ferðamanna til landsins til skemmri tíma. Íslandsstofa

Forstöðumaður markaðssamskiptasviðs Íslandsstofu segir að eldgos eigi ekki eftir að hafa mikil áhrif á komu ferðamanna til skemmri tíma. Ekki sé mikið um laus hótelherbergi og erfitt væri að finna flugsæti. Til lengri tíma litið hafi eldgos þó góð áhrif á ímynd Íslands.

„Ef maður má vera með ákveðna væntingastjórnun hérna þá mun þetta ekki endilega hafa mikil áhrif á komu ferðamanna, allavega til skemmri tíma,“ segir Sveinn Birkir Björnsson, forstöðumaður markaðssamskiptasviðs Íslandsstofu í samtali við Bítið á Bylgjunni.

Ástæðan fyrir því sé helst sú að þó svo að fólk vilji koma og sjá eldgosið þá sé það erfitt. 

„Segjum að það hefst gos bara eftir hádegi og fólk myndi vilja koma og sjá það, þá mun það bara lenda í vandræðum með að finna hótelherbergi, það mun lenda í vandræðum með að finna flugsæti og annað því bókunarstaðan á Íslandi er ákaflega sterk í augnablikinu.“

Erfitt að lofa eldgosum

Sveinn segir að til lengri tíma litið séu eldgos jákvæð fyrir ímynd landsins, þó svo að þau séu ekki mjög lengi í gangi. „Þetta hefur afskaplega góð áhrif á ímynd Íslands sem ævintýralegur áfangastaður. Þetta eykur svona kannski ævintýraljómann af landinu,“ segir hann. 

„Þessi ímynd að Ísland sé staður þar sem þú getur komið og upplifað náttúru, komist í nálægð við náttúruöflin, hvort sem það eru norðurljós, jöklar eða eldgos, hún styrkist mjög mikið. Til lengri tíma þá hjálpar þetta mikið ímyndinni og kannski eykur áhugann á að ferðast.“

Þá segir Sveinn að Íslandsstofa sé ekki mikið í því að nota eldgos við markaðssetningu fyrir landið. „Við erum svolítið meira að vinna með upplifunina og ævintýraljómann af áfangastaðnum Íslandi,“ segir hann.

„Það er erfitt að vinna með eldgos beint því maður er dálítið að lofa upp í ermina á sér, það er afskaplega erfitt að lofa því að hér verði eldgos þegar fólk kemur eftir tvö ár eða hvenær sem þú ert að skipuleggja ferðina þína.“

Þess vegna sé stigið varlega til jarðar með að nota myndefni af eldgosum. „Því það er erfitt að lofa þessu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×