Innlent

Tíu mánuðir fyrir tvær líkams­á­rásir

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
heraðsdomur suðurlands
Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær karlmann á þrítugsaldri til tíu mánaða fangelsisvistar fyrir að hafa framið tvær líkamsárásir, þar af eina á fimmtán ára dreng, og fyrir tvö umferðarlagabrot. 

Í dómnum kemur fram að sá ákærði hafi veist að fimmtán ára dreng á göngustíg á Selfossi þann 18. ágúst árið 2021. Hann hafi hrint honum í jörðina og slegið hann ítrekað í höfuð og efri hluta líkamans. Þá hafi hann traðkað á brjóstkassa hans og hrint drengnum aftur í jörðina þegar honum tókst að standa upp. 

Einnig hafi hann ráðist á mann í stigagangi í fjölbýlishúsi á Selfossi aðfaranótt sunnudagsins 16. janúar árið 2022. Hann hafi slegið manninn ítrekað í höfuðið og sparkað í líkama hans með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut skurð á höfði.

Þá hafi hann í tvígang ekið bifreið sviptur ökurétti.

Maðurinn játaði allri sök og þegar viðstöddum var gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga kom fram að hann væri að taka á sínum málum. 

Sá ákærði hefur sex sinnum áður sætt refsingu frá árinu 2020. Þar á meðal fyrir minniháttar líkamsárásir, umferðarlagabrot og brot gegn valdstjórninni. 

Maðurinn var dæmdur til tíu mánaða fangelsisvistar, þar af sjö mánuði skilorðsbundið. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×