Skoðun

Rang­færslur „fagráðs“ um vel­ferð dýra

Árni Alfreðsson skrifar

Fagráð um velferð dýra birti nýverið (16. júní s.l.) skýrslu eða álit sitt varðandi hvalveiðar. Á þessu áliti byggir matvælaráðherra tímabundið bann við hvalveiðum. Álitið eru tæpar tvær gisnar síður. Í þessum örfáu setningum þá kemst fagráðið að merkilega mörgum rangfærslum. Rangfærslur sem eru til þess gerðar að gera þetta álit að marklausu plaggi.

Meginrök fagráðsins byggir á skýrslu MAST frá vertíðinni 2022. Skýrsla MAST hefur fengið falleinkunn frá dýralækninum Egil Øen, helsta sérfræðingi heims í aflífun hvala. Vegna aðferðafræði MAST sem eingöngu byggir á misgóðum myndbandsupptökum frá illa þjálfuðum aðilum á vegum Fiskistofu. Engin vönduð skoðun var gerð á dýrunum né krufning þegar í land var komið. Úrtakið 58 dýr. Makalaus yfirsjón MAST.

2014 þá stýrði umræddur Egil Øen rannsókn á dauðtíma langreyða. Settar voru upp öflugar myndavélar í mastri hvalbátanna og um borð var mjög reyndur norskur dýralæknir, Sérfræðingur í aflífun húsdýra og hvala. Hann fylgdist með úti á sjó og sá jafnframt um ítarlega skoðun og krufningu á dýrunum þegar í land var komið. Niðurstaða þessarar rannsóknar voru að 84% dýranna voru dauðskotin. 16% eða 8 dýr tók 6,5-15 mín að deyða (miðgildi 8 mín.). Úrtakið 50 dýr.

Þrátt fyrir mikla annmarka á rannsókn MAST má fullyrða að margt hafi gengið á afturlöppunum á vertíðinni 2022. Niðurstöður MAST voru upphaflega að 59% hvalanna hafi verið dauðskotin en það fært upp í 67% eftir athugasemdir Egil Øen. Og þarna voru tveir hvalir sem tók einn til tvo tíma að deyða. Engan veginn ásættanlegt.

Fagráðið fyllyrðir engu að síður að ekkert bendi til að hægt sé að gera betur en á vertíðinni 2022 þar sem aðeins 59-67% dýranna voru dauðskotin og allt gekk á afturfótunum.

Af hverju minnist fagráðið ekkert á mun betri og ítarlegri rannsókn sem greinir frá mun betri árgangri árið 2014?

Hvernig leyfir fagráðið að fullyrða að ekki sé hægt að gera betur þegar til eru vísindaleg gögn sem benda til hins gagnstæða? Þetta er það fyrsta sem gerir skýrslu fagráðs marklausa litaða af fyrirfram gerðri niðurstöðu.

Fagráðið rökstyður ennfremur ályktun sína um bann við hvalveiðum að mestu í fimm liðum. Förum yfir helstu rangfæsrlurnar/lygina.

  1. „Verið sé að veiða kýr með kálf sér við hlið“. M.ö.o. mjólkandi kýr með kálf á spena. Rangfærsla. Í fyrsta lagi er þetta bannað með lögum og við þessu liggja háar fjársektir. Það er algjör undantekning ef kýr með mjólk í júgrum komi á land í hvalstöðinni. Það þekkist hins vegar að kýr sem hafa nýlega hafa vanið kálf frá sér og af spena geti haft mjólk í júgrum. Eins og mæður úr mannheimum þekkja. Í þessum undantekningatilvikum þá hafa verið tekið vefjasýni sem rannsakað er. Í öllum tilvikum nema einu hefur tekist að staðfesta að kýrin hafi ekki verið með kálf á spena á s.l. 15 árum. Þetta eina tilvik sannar engan veginn að kýrin hafi enn verið með kálf sér við hlið.
  2. „Lífslíkur móðurlausra kálfa eru hverfandi“. Rangfærsla að því leyti að kýr með kálfa sér við hlið (á spena) eru ekki veiddar.
  3. „Stundum þurfi að fylgja hvalnum eftir í einhvern tíma til að veiða hann. Slíkt geti skapað ótta og streitu hjá dýrinu og dýrum í grennd“. Almennt séð þá breyta hvalir hegðun sinni lítið þó skip eða bátar séu nálægt þeim. Virðast hreinlega kæra sig kollótta. Hvalveiðar virka ekki þannig að hvalurinn sé á flótta. Þetta snýst einfaldlega um að vera á réttum stað þegar hvalurinn kemur upp. Ef þetta væri eitthvað stórt atriði þá þyrfti að banna alla hvalaskoðun við landið strax í dag. Við hvalaskoðun þá eru bátarnir oft á tíðum miklu nær dýrunum. Skipin/bátarnir margfalt fleiri en við hvalveiðar og hvalaskoðun er stunduð allan ársins hring. Ótti og streita er því margfalt meiri af völdum hvalaskoðunar en hvalveiða. Ef eitthvað er þá að marka þessa kenningu fagráðráðsins.
  4. „Ekki er hægt að tryggja skjótan dauðdaga langreyða“. Rangfærsla. Í rannsókn á dauðatíma langreyða hér við land 2014 þá drápust öll dýranna sem fengu skutul í brjóstholið samstundis. Þetta voru 84% dýranna í úrtakinu (50) sem þannig voru dauðskotin. 16% tók 6,5-15 mínútur að deyja (miðgildi 8 mín.)
  5. Vitnað er í grein Egil Øen dýralæknis helsta sérfræðings heims í aflífun hvala frá 2021. Fagráðið dregur út nokkrar setningar úr langri grein og segir að útfrá orðum hans megi álykta að ekki sé hægt að tryggja skjóta aflífun þó skutull hitti á rétt svæði (brjóstholið). Í greininni fer Egil Øen ítrekað yfir að hitti skutull rétt svæði (brjóstholið) tryggi það skjótan dauðdaga. Hann hefur haldið þessu fram í tugum vísindagreina gegnum árin. Hvernig í ósköpunm fagráðinu tekst að skrumskæla orð hans er mér hulin ráðgáta.

Það er alveg sama hvar borið er niður í þessu örstutta áliti fagráðs, það er allt fullt af rangfærslum. Dylgjur og lygar. Sem allar virðast ætlaðar til þess að koma allra verstu mynd sem hugsast getur af hvalveiðum. Það hlýtur að þurfa opinbera rannsókn á því hverjir það voru sem komu með sumar þessar upplýsingar og hverning þær komust á blað

Í viðtali í Kastljósi 8. maí þá minnist forstjór MAST ekki einu orði á þessa rannsókn frá 2014 af fyrra bragði. Það er spyrill Kastljós sem fær hana til að viðkenna tilvist hennar með semingi. Matvælaráðherra fullyrti stuttu seinna að skýrsla MAST væri fyrsta rannsókn á dauðatíma langreyða og fyrsta og eina rannsóknin sem sýndi þetta svart á hvítu. Af hverju öll þessi hylming og lygi?

Það fór án efa margt úrskeiðis á vertíðinni 2022. Um það eru allir sammála. En að draga þessa skelfilegu vertíð fram sem einhvern loka sannleik er einfaldlega ekki sannleikanum samkvæmt.

Menn geta haft ólíkar skoðanir á hvalveiðum. En þegar opinberir aðilar fara með staðlausa stafi, rangfærslur og lygar eða hvað menn vilja kalla ósannindi af versta toga þá þarf að staldra við. Opinberir aðilar geta ekki leyft sér það sem dýraverndunarsinnar halda fram með engri ábyrgð. Það þarf einfaldlega opinbera rannsókn á fullyrðingum þessa merka “fagráðs” um velferð dýra. Hver kom með sumar þessar lygar á borð fagráðsins? Og hvernig komst sumt af þessu á blað? Fagmennskunni er a.m.k. hvergi fyrir að fara.

Höfundur er er líffræðingur (á sviði hvala).




Skoðun

Sjá meira


×