Erlent

Segir Rússa hugsan­lega ætla að sprengja kjarn­orku­ver

Árni Sæberg skrifar
Úkraínskur hjálparstarfsmaður æfir viðbragð við geislamengun við Zaporizhzhia.
Úkraínskur hjálparstarfsmaður æfir viðbragð við geislamengun við Zaporizhzhia. vgeniy Maloletka/AP

Úkraínuforseti segir að Rússar gætu verið að undirbúa sig fyrir það að sprengja Zaporizhzhia-kjarnorkuverið, stærsta kjarnorkuver Evrópu. 

„Þetta er alvarleg ógn af því að Rússar eru tæknilega séð tilbúnir til þess að sprengja hnitmiðaða sprengju í verinu, sem myndi leiða til geislamengunar,“ sagði Vólódímír Selenskí Úkraínu á blaðamannafundi, sem haldinn var í tilefni heimsóknar Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, til Úkraínu.

Hann segir heimildir leyniþjónustu úkraínska hersins (GRU) benda til þess að Rússar hafi fært hluta herliðs síns frá kjarnorkuverinu, en þar hafa þeir starfrækt herstöð, og sagt starfsfólki að yfirgefa það.

Þá hefur hann eftir Kyrylo Budanov, yfirmanni GRU, að stjórnvöld í Kreml hafi þegar samþykkt áætlun um að sprengja kjarnorkuverið í loft upp og að sprengiefni hafi verið komið fyrir í fjórum af sex kjarnakljúfum kjarnorkuversins.

Vassily Nebenzia, erindreki Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur tekið fyrir fullyrðingar Selenskís og sagst hafa sent António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, bréf þess efnis að Rússar ætli sér alls ekkert að sprengja Zaporizhzhia-kjarnorkuverið í loft upp.

The Guardian greinir frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×