Fótbolti

Óskar upp­lifir and­stæðinga Blika kok­hrausta: „Ekki fyrstir til þess að gera það“

Aron Guðmundsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson
Óskar Hrafn Þorvaldsson Vísir/Hulda Margrét

Það ræðst á föstu­dags­kvöld hvort það verður hlut­skipti Breiða­bliks eða Buducnost frá Svart­fjalla­landi að spila í undan­keppni Meistara­deildar Evrópu í fót­bolta. Liðin eiga sér stutta en hat­ramma sögu og mætast í hreinum úr­slita­leik í for­keppni Meistara­deildarinnar á Kópa­vogs­velli.

„Við erum mjög spenntir, þetta eru leikirnir sem menn eru að leggja allt streðið og puðið á sig fyrir,“ segir Óskar Hrafn við Vísi. „Þetta eru skemmti­legustu leikirnir og mikið undir. Það eru ó­trú­leg for­réttindi að fá að spila þessa Evrópu­leiki. Það er mikil spenna, þakk­læti og gleði í okkar her­búðum gagn­vart því að fá að taka þátt í þessu.“

Ár er síðan að Breiða­blik og Buducnost mættust síðast. Liðin háðu ein­vígi í 2. um­ferð Sam­bands­deildar Evrópu, ein­vígi sem Breiða­blik hafði betur í.

„Þeir eru með dá­lítið breytt lið frá því í fyrra. Þegar að mótið hjá okkur kláraðist lá það fyrir hvaða lönd myndu eiga fé­lags­lið í þessari for­keppni sem við erum núna í. Við erum því búnir að fylgjast vel með deildinni í Svart­fjalla­landi í vetur. Þeir eru með breytt lið, stærra, þyngra og jafn­framt eldra lið. Kant­mennirnir þeirra, sem voru báðir léttir og liprir, hafa verið seldir og í staðinn eru komnir inn menn með að­eins meiri vöðva og þroska.

Fyrst og síðast munum við þurfa að passa föstu leik­at­riðin. Þeir eru gríðar­lega sterkir þar, sterkir í loftinu og með fína spyrnu­menn. Þá eru þeir líka fljótir í færslum milli varnar og sóknar. Þegar að þeir vinna boltann geta þeir farið mjög hratt á þig. Við þurfum því að passa vel upp á boltann að því leitinu til að við þurfum líka að passa okkur á því að vera þvinga hlutina.“

Blikar verði að þora að spila fram á við, þora að spila í gegnum raðir Buducnost.

„Það þarf því að vera góð á­hættu­stjórnun en fyrst og síðast þurfum við að passa upp á að dekka þá í föstu leik­at­riðunum og loka á fyrir­gjafir frá þeim. Helst koma í veg fyrir að við séum að fá á okkur klaufa­legar auka­spyrnur á okkar eigin vallar­helmingi.“

Sauð upp úr síðast þegar liðin mættust í Kópavogi

Ein­vígi liðanna í Sam­bands­deildinni í fyrra er mörgum ferskt í minni en upp úr sauð þegar liðin mættust á Kópa­vogs­velli og fóru þrjú rauð spjöld á loft. Óskar Hrafn á ekki von á öðrum eins látum í leik liðanna á morgun.

„Ég á ekki von á því að þeir muni draga það með sér inn í þennan leik, núna ári seinna, ég yrði mjög hissa á því. Þetta er auð­vitað breytt lið, það voru tveir sem spiluðu á móti okkur í fyrra sem byrjuðu undan­úr­slita­leik þeirra á móti At­hletic Club D´Es­cald­es á dögunum. Þá er einnig nýr þjálfari í brúnni hjá þeim.“

„Þeir eru blóð­heitir Svart­fellingarnir og það býr mikil ást­ríða í þeim. Ég á því von á því að þeir muni sýna skap, sýna tennurnar á móti okkur en á síður von á því að það sjóði allt upp úr eins og gerðist í fyrra.

Það sem átti sér stað þar er ekki eitt­hvað sem telst vera eðli­legt. Menn munu sýna til­finningar en ná að halda þeim svona hæfi­lega í skefjum.“

Svartfellingar virki kokhraustir

Á blaða­manna­fundi Blika í dag talaði Óskar Hrafn um að liðs­menn Buducnost virkuðu á sig sem kok­hraustir í við­tölum við fjöl­miðla ytra fyrir leikinn gegn Blikum.

Heldurðu að þeir séu að van­meta ykkur í að­draganda leiksins?

„Ég vona það, þeir verða þá ekki fyrstir til þess að gera það. Ég vona svo sannar­lega að þeir telji sig betri en okkur og eigi von á léttum leik. Það væri full­komið fyrir okkur.

Þetta er kunnug­legt stef finnst mér þegar að við höfum verið að mæta í Evrópu­leiki. Lið hafa, oft á tíðum, ekki tekið okkur al­var­lega og stundum fengið á baukinn í kjöl­farið. Ef það er upp á teningnum þá er það flott, það hjálpar okkur.

Við van­metum ekki Buducnost og vitum að þetta er öflugt og vel mannað lið. Það er miklu til tjaldað þarna, þeir eyða miklum peningum í leik­manna­hópinn og hafa úr nægu að moða á milli handanna.

Þó að þeir séu í þessum riðli núna, og þrátt fyrir að Svart­fellingum hafi ekki gengið neitt frá­bær­lega vel í Evrópu undan­farin ár, þá er bæði þetta lið og liðið sem endaði í 2. sæti í deildinni í Svart­fjalla­landi mjög öflugt.

Blikar eigi von á erfiðum leik.

„En hvað þeir hugsa, ég átta mig eigin­lega ekki alveg á því. Ég upp­lifi þá eins og þeir séu á­nægðir með sig, þeir hafa alveg á­stæðu til þess eftir góðan sigur á D´Es­cald­es en við tökum bara á móti þeim og þurfum að láta það telja að við séum á miðju tíma­bili á meðan að þeir eru enn á undir­búnings­tíma­bili sínu.“

Leikur Breiða­bliks og Buducnost verður sýndur í beinni út­sendingu á Stöð 2 Sport og hefst bein út­sending klukkan korter í sjö á föstu­dags­kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×