Erlent

Minnst tveir fórust og 22 særðust þegar flug­skeyti hæfðu þétt­setið veitinga­svæði

Eiður Þór Árnason skrifar
Úkraínsk stjórnvöld hafa birt ljósmynd af eftirleik árásarinnar. 
Úkraínsk stjórnvöld hafa birt ljósmynd af eftirleik árásarinnar. 

Minnst tveir fórust og 22 særðust þegar rússnesk flugskeyti hæfðu þéttsetið veitingahúsasvæði í austurhluta borgarinnar Kramatorsk í Úkraínu, að sögn þarlendra yfirvalda.

Innanríkisráðuneyti landsins greinir frá því að veitingastaður og verslunarsvæði í miðborginni hafi orðið fyrir skemmdum og fólk kunni að vera fast undir húsarústum. Björgunaraðgerðir standa nú yfir og ekki liggur fyrir hver heildarfjöldi særðra er að svo stöddu. 

Mikið af almennum borgurum á svæðinu

Pavlo Kyrylenko ríkisstjóri greindi fyrr frá því í úkraínsku sjónvarpi að tvö flugskeyti hafi hæft borgina í kvöld. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu. Um væri að ræða veitingasvæði sem hafi verið yfirfullt af almennum borgurum þegar árásin átti sér stað. Fregnir hafa borist af því að barn sé meðal hinna særðu. 

Rússneskar hersveitir eru einnig sagðar hafa gert árás á nærliggjandi þorp, samkvæmt borgaryfirvöldum.

Kramatorsk í Donetsk-héraði hefur nokkrum sinnum áður orðið fyrir flugskeytaárásum rússneskra hersveita eftir að innrás þeirra hófst í fyrra. Í apríl 2022 fórust yfir fimmtíu manns í árás á lestarstöð þar í borg. 

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 19:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×