Íslenski boltinn

Mót­herjar Blika í kvöld hafa tapað tólf Evrópu­leikjum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oliver Sigurjónsson, Viktor Örn Margeirsson og Damir Muminovic verða í eldlínunni Breiðablik hefur leik í Evrópukeppninni í kvöld.
Oliver Sigurjónsson, Viktor Örn Margeirsson og Damir Muminovic verða í eldlínunni Breiðablik hefur leik í Evrópukeppninni í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Íslandsmeistarar Breiðabliks spila fyrsta Evrópuleik íslensk knattspyrnuliðs í ár þegar liðið mætir S.P. Tre Penne frá San Marínó á Kópavogsvelli í kvöld.

Þetta er undanúrslitaleikur í umspili um eitt laust sæti í fyrstu umferð forkeppni. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Sigurvegari leiksins í kvöld mætir annað hvort Atlètic Club frá Andorra eða Buducnost frá Svartfjallandi í úrslitaleik sem fer einnig fram á Kópavogsvelli í dag.

Mótherjar Blika í ár urðu meistarar í heimalandi í fyrra en það var fimmti meistaratitill félagsins.

Liðið hefur margoft tekið þátt í Evrópukeppninni undanfarin ár en gengið hefur ekki verið upp á marga fiska.

Tre Penne hefur nefnilega tapað síðustu tólf Evrópuleikjum sínum þar af síðustu sjö með markatölunni 1-28.

Tre Penne hefur ekki skorað mark í síðustu fjórum Evrópuleikjum sínum eða samtals í 434 mínútur.

Það er því óhætt að segja að Breiðablik sé sigurstranglegra liðið í leik kvöldsins.

Blikar fara sömu leið og Víkingar í fyrra sem þurftu einnig að fara í gegnum svona umspil sem fór fram í Víkinni. Víkingar kláruðu það, unnu fyrri leikinn 6-1 og þann seinni 1-0.

Takist Blikum að vinna báða leikina þá mæta þeir írska félaginu Shamrock Rovers í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×