Innlent

Hyggjast flytja út 43 þúsund tonn af sorpi til brennslu í Sví­þjóð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sorp verður flutt frá Íslandi til orkuvinnslu í Svíþjóð.
Sorp verður flutt frá Íslandi til orkuvinnslu í Svíþjóð. Vísir/Vilhelm

Stjórn Sorpu hyggst ganga til samninga við Stena Recycling AB um móttöku á brennalegum úrgangi frá höfuðborgarsvæðinu til brennslu í Svíþjóð. Gert er ráð fyrir að flytja út 43 þúsund tonn af úrgangi til brennslu árlega.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Sorpu.

Þar segir að framkvæmdastjóra Sorpu hafi verið falið að ganga til samninga við Stena Recycling AB en tilboð fyrirtækisins í verkefnið hafi verið 35 prósent undir kostnaðaráætlun Sorpu. 

Þá segir að útflutningurinn muni hefjast á haustmánuðum og áætlað er að í kjölfarið muni urðun í Álfsnesi dragast saman um 65 prósent á ári, samanborið við árið 2022.

„Með útflutningi verður dregið verulega úr urðun á landsvísu og neikvæðum áhrifum urðunarstaðar á nærliggjandi byggðir,“ segir í tilkynningunni.

Sorpið verður nýtt til orkuframleiðslu í Svíþjóð en þess er ekki getið í tilkynningunni hver áætluð losun er vegna flutningsins og brennslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×