Erlent

Lést í rússí­bana­slysi í Sví­þjóð

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá vettvangi í morgun. Skemmtigarðinum hefur verið lokað.
Frá vettvangi í morgun. Skemmtigarðinum hefur verið lokað. Claudio Bresciani/AP

Einn er látinn og nokkrir eru slasaðir eftir að rússí­bani fór út af sporinu í morgun í Gröna Lund skemmti­garðinum í Stokk­hólmi, að því er fram kemur á vef Afton­bladet.

Þar segir að við­bragðs­aðilar úr liði lög­reglu og sjúkra­flutninga­manna séu nú á staðnum. Skemmti­garðurinn hefur verið rýmdur á meðan við­bragðs­aðilar at­hafna sig.

Ó­ljóst er á þessari stundu hvers vegna rússí­baninn fór út af sporinu og ó­víst er að svo stöddu hversu margir eru slasaðir. Þá er ekki ljóst á þessari stundu hve al­var­leg meiðsl þeirra eru.

Afton­bladet hefur eftir Anniku Troselius, tals­manni skemmti­garðsins, að garðurinn muni vinna með sænskum yfir­völdum að fullu. Nú sé allt gert til þess að huga að hinum slösuðu.

Þá hefur miðillinn eftir Mou Hummelgard, yfirmanni björgunarsveita á staðnum, að enn sé unnið að því að koma gestum úr rússibananum sem sitji fastir í vögnum hans.

Blaðið ræðir auk þess við vitni sem telur að hjól hafi dottið af rússíbananum. Vitnin lýsa miklum hvellum sem minnt hafi á byssuskot.

Um er að ræða rússíbanann Jetline en hann fer mest á 90 kílómetra hraða. Þá er hann hæstur í þrjátíu metra lofthæð. Rúmlega milljón gestir á hverju ári prófa rússíbanann, samkvæmt vef skemmtigarðsins.

Rússíbaninn sem um ræðir ber nafnið Jetline. Gröna Lund


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×