Innlent

Bjargað þar sem hún hékk á vara­dekki í Markar­fljóti

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Konan var hífð upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Konan var hífð upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitir og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar komu konu til bjargar í Markarfljóti í morgun eftir að bíll hennar lenti í fljótinu.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að konan hafi verið á leið heim úr vinnu og virðist svo vera sem hún hafi sofnað undir stýri. Jepplingur konunnar lenti upp á vegriði við brú þar sem það er sveigt ofan í jörð og vegriðið því eins og stökkpallur að sögn Jóns.

Jepplingur konunnar ferðaðist hundrað metra niður ána en konan náði að koma sér út úr honum og hékk á varadekki hans aftan á bílnum þegar vegfarandi varð hennar var og gerði björgunarsveitum viðvart.

Jón segir ekki ljóst hve lengi konan var í fljótinu áður en hennar varð vart. Björgunarsveitir fóru á tuðru út á fljótið og komst björgunarmaður til hennar á bílnum, þar sem hún var færð upp á þakið þar sem fór betur um hana, að sögn Jóns.

Konan er ekki alvarlega slösuð en var köld og smeyk. Hún var hífð upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar og flutt á Landspítalann.

Vegriðið þar sem konan fór út af. Hjólför eru eftir bíla björgunarsveita.Landsbjörg


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×