Erlent

Norskur ráð­herra segir af sér fyrir klíku­skap

Kjartan Kjartansson skrifar
Anette Trettebergstuen þegar hún tók við lyklavöldum í menningar- og jafnréttisráðuneytinu í október 2021. Hún sagði af sér með skömm í dag.
Anette Trettebergstuen þegar hún tók við lyklavöldum í menningar- og jafnréttisráðuneytinu í október 2021. Hún sagði af sér með skömm í dag. Vísir/EPA

Anette Trettebergstuen sagði af sér sem menningar- og jafnréttisráðherra Noregs í dag. Jonas Gahr Størel, forsætisráðherra, segir hana hafa gert stórt mistök þegar hún skipaði vini og fyrrverandi flokkssystkini í stjórnir stofnana ríkisins.

Málið snýst um tilnefningar Trettebergstuen á þremur vinum sínum í stjórnir norsku óperunnar, þjóðminjasafnsins og Þjóðarleikhússins í Björgvin. Hún lýsti manni sem hún tilnefndi í stjórn þjóðminjasafnsins sem nánum vini sínum. Fram hefur komið að hún hafi tilnefnt hann þrátt fyrir að henni væri ljóst að hún væri vanhæf.

Trettebergstuen viðurkenndi mistök sín og sagðist axla ábyrgð á þeim á blaðamannafundi í dag. Hún afsakaði sig meðal annars með því að hún hefði ekki vitað að hún mætti ekki tilnefna fólk til embætta þegar hún væri vanhæf, að sögn norska ríkisútvarpsins NRK.

Støre sagði ákvörðun Trettebergstuen um að segja af sér rétta. Hún hefði brotið reglur og sýnt vanþekkingu á reglum um vanhæfi. Hún hefði tilnefnt fólk sem hún tengdist þrátt fyrir viðvaranir ráðuneytis hennar.

Spurningar hafa einnig vaknað um hæfi Trettebergstuen þegar hún tilnefndi tvö fyrrverandi flokkssystkini sín úr Verkamannaflokknum til stjórnarsetu í Norskum getraunum í apríl í ár og í fyrra. Ráðherrann taldi sig ekki vanhæfan í tilfelli þeirra.

Fyrr í þessari viku kom á daginn að Tonje Brenna, menntamálaráðherra sem er einnig úr Verkamannaflokknum, hefði veitt góðvini sínum stjórnarsæti. Hún lýsti sig síðar vanhæfa og baðst afsökunar. Støre sagði mál Brenna og Terrebergstuen eðlisólík í dag. Það sem gerði mál Trettebergstuen meðal annars svo alvarlegt væri að launin fyrir stjórnarsetu sem hún úthlutaði nema í sumum tilfellum 90.000 norskum krónum. rúmlega 1,1 milljón íslenskra króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×