Innlent

Einn í gæsluvarðhald en öðrum sleppt

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Lögregla kom að vettvangi í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði í morgun, þar sem maður á fimmtugsaldri fannst látinn.
Lögregla kom að vettvangi í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði í morgun, þar sem maður á fimmtugsaldri fannst látinn. vísir/vilhelm

Annar mannanna, sem handtekinn var í tengslum við mannslát í Drangahrauni í Hafnarfirði í dag, var í kvöld úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins. Hinn maðurinn sem var handtekinn er laus úr haldi lögreglu.

Frá þessu greinir lögreglan á höfuðborgarsvæði í tilkynningu. 

Segir þar að maðurinn sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald sé um fertugt. Gildir úrskurðurinn til fimmtudagsins 22. júni og er á grundvelli almannahagsmuna. 

Lögregla segist ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Í dag var greint frá því að mennirnir tveir hefðu verið handteknir á vettvangi vegna gruns um manndráp í Hafnarfirði aðfararnótt 17. júní. 

Grímur Grímsson sagði í samtali við fréttastofu að lögregla hafi komið að vettvangi, iðnaðarhverfi í Hafnarfirði, á sjötta tímanum í morgun þar sem maður hafi fundist látinn utandyra. Mennirnir tveir hafi verið handteknir á vettvangi, annar utandyra en hinn inni í nálægu húsi.

Hinn látni er á fimmtugsaldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×