Innlent

Björgunar­sveitar­menn lánuðu konum jakkana sína

Árni Sæberg skrifar
Konunum í hópnum var orðið kalt.
Konunum í hópnum var orðið kalt. Landsbjörg

Björgunarsveitarfólk frá Stefáni í Mývatnssveit kom hópi ferðamanna til aðstoðar á Hlíðarfjalli í gærkvöldi. Fólkið hafði villst út af hefðbundinni gönguleið og komið sér í sjálfheldu undir klettabelti. Nokkurn tíma tók að koma fólkinu niður fjallið og björgunarsveitarmenn voru svo almennilegir að lána tveimur konum úr hópnum jakkana sína, enda var þeim farið að kólna talsvert.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Þar segir að hópurinn, tvær konur og einn karlmaður, hafi valið hefðbundna gönguleið á fjallið, en þegar þau voru komin nokkuð upp í fjallið, hafi þau þau út af leiðinni og stefnt undir klettabelti, sem þau töldu færa leið. 

Þegar þau höfðu lesið sig upp undir klettabeltið með aðstoð spotta sem var með í för, hafi þau átta sig á að lengra yrði vart haldið. Konurnar tvær hafi ekki treyst sér til að halda áfram og þá hafi verið farið fram á aðstoð björgunarsveitar.

Björgunarsveitarmenn eru öllum hnútum kunnugir þegar kemur að því að ná fólki niður af fjöllum.Landsbjörg

Hópur frá Stefáni hafi haldið á fjallið og fljótlega verið kominn til þeirra. Nokkurn tíma hafi þó tekið að tryggja niðurgöngu þeirra svo vel væri, en þarna hafi fjallið verið laust í sér og töluverð hætta af og á grjóthruni.

„Eins og sést á myndunum sem fylgja eftirlét björgunarfólk nokkuð af fatnaði sínum, enda konunum farið að kólna talsvert. Þær voru svo aðstoðaðar niður, önnur í einu, í samfloti við björgunarmann. Ekki var þörf á að aðstoða þriðja aðilann, sem gat lagt hönd á plóg við björgunaraðgerðir. Allir voru komnir niður heilir á húfi undir miðnætti,“ segir í tilkynningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×