Fótbolti

Fjögurra leikja bann fyrir að bíta andstæðing

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alberto Sánchez Montilla hefur verið dæmdur í fjögurra leikja bann fyrir „grófa óíþróttamannslega framkomu“ í leik með Kormáki/Hvöt í 3. deild karla.
Alberto Sánchez Montilla hefur verið dæmdur í fjögurra leikja bann fyrir „grófa óíþróttamannslega framkomu“ í leik með Kormáki/Hvöt í 3. deild karla. Samsett

Alberto Sánchez Montilla, leikmaður Kormáks/Hvatar hefur verið dæmdur í fjögurra leikja bann fyrir að bíta andstæðing sinn í leik liðsins gegn Kára í 3. deildinni síðastliðinn sunnudag.

Atvikið átti sér stað þegar tæplega tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum þegar Alberto og Hilmar Halldórsson, leikmaður Kára, féllu báðir til jarðar inni í vítateig Kormáks/Hvatar. Í kjölfarið tók Alberto upp á því að bíta Hilmar í kálfann og þeim síðarnefnda var í kjölfarið ráðlagt af lækni að fara í stífkrampasprautu daginn eftir leik.

Í reglubundnum úrskurði aganefndar KSÍ kemur fram að Alberto sé dæmdur í fjögurra leikja bann vegna brottvísunar, áður en tekið er fram að um grófa óíþróttamannslega framkomu hafi verið að ræða.

Alberto er þó ekki sá eini úr umræddum leik sem dæmdur er í bann í úrskurði aganefndar KSÍ. Alls fóru sex rauð spjöld á loft í leiknum og þurfa allir þeir sem fengu að líta rauða spjaldið að taka út bann í einn til tvo leiki. Þar á meðal er Marinó Hilmar Ásgeirsson sem fékk að líta rauða spjaldið fyrir að rífa Alberto af samherja sínum þegar atvikið átti sér stað. Marinó þarf að taka út tveggja leikja bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×